sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sáratregt á úthafskarfanum

16. júní 2009 kl. 12:03

,,Þetta er nákvæmlega sama þróunin og eftir sjómannadaginn í fyrra í úthafskarfaveiðunum. Aflinn losaði tonn á tímann fyrstu tvo dagana eftir að skipin komu út en síðan hefur hann farið minnkandi í hvert skipti sem maður hífir. Núna er sólarhringsaflinn á bilinu 17-20 tonn,” sagði Guðmundur Jónsson skipstjóri á Venusi HF í samtali við Fiskifréttir nú fyrir hádegi í dag.

Skipin eru að veiðum í námunda við 200 mílna lögsögumörkin suðvestur af landinu. ,,Við höfum ekki verið innan um útlendu skipin núna því hríslingur af karfa er innan við línuna og þar hafa íslensku skipin getað athafnað sig,” sagði Guðmundur.

Ellefu íslenskir togarar eru núna á miðunum, þar af fjögur skip frá HB Granda, þau Venus, Þerney, Örfirisey og Helga María, en auk þeirra eru Arnar, Málmey, Kleifaberg, Þorsteinn, Gnúpur, Freri  og Þór á slóðinni. Mánaberg er farið heim.