

Sautján bæjarstjórar eða sveitarstjórar á landinu undirrita grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag þar sem lýst er stuðningi við svonefnda sáttaleið í sjávarútvegi.
Í greininni segir m.a.: ,,Við undirrituð lýsum yfir stuðningi við tillögur ,,sáttanefndarinnar” um samningaleið byggða á aflahlutdeild. Við hvetjum stjórnvöld til að víkja til hliðar deilum sem skapa óöryggi um grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar en fylgja þeirri sátt sem lagður hefur verið grunnur að. Með því væri stórt skref tekið í átt að aukinni samfélagssátt og um leið vörðuð út úr þeim þrengingum sem við nú búum við.”
Undir greinina rita bæjarstjórar eða sveitarstjórar Vestmannaeyja, Snæfellsbæjar, Grindavíkur, Vesturbyggðar, Akureyrar, Grýtubakkahrepps, Seyðisfjarðar, Hornafjarðar, Langanesbyggðar, Norðurþings, Fjarðabyggðar, Bolungarvíkur, Reykjanesbæjar, Garðs og Fjallabyggðar, svo og formaður bæjarráðs Árborgar og oddviti Tálknafjarðarhrepps.