laugardagur, 19. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Segir grundvelli kippt undan útgerðinni með takmörkunum á dragnótaveiðum

4. maí 2010 kl. 16:04

Þessar nýju tillögur sjávarútvegsráðherra um að loka sjö svæðum fyrir dragnótaveiðum þýða það einfaldlega að það er verið að hindra aðgang að mörgum af bestu veiðisvæðunum í Húnaflóa og Skagafirði án þess að fyrir því liggi nokkur vísindaleg rök," segir Friðgeir Höskuldsson á Drangsnesi, sem gerir út dragnótabátinn Grímsey ST 2.  Hann telur að gangi tillögurnar eftir sé grundvellinum kippt undan útgerð hans.

Þessar upplýsingar koma fram á vef Landssambands íslenskra útvegsmanna. Friðgeir vísar til nýlegrar rannsóknar Hafrannsóknastofnunarinnar í Skagafirði og segir að hún sýni svart á hvítu að að áhrif dragnótaveiða á lífríki hafsbotnins séu ekki marktæk. Í niðurlagsorðum skýrslu stofnunarinnar segir: „Þær niðurstöður sem fengust í þessari rannsókn benda ekki til að dragnótin hafi áhrif á botndýralíf í Skagafirði."

Friðgeir segist óttast að gangi þessar tillögur eftir séu þær aðeins fyrsta skrefið í átt til enn frekari lokana veiðisvæða. Hann gerði út á innfjarðarrækju áður en hún brást og sneri sér þá að dragnótaveiðum. Friðgeir efast ekki um að rækjan gangi aftur inn á firðina, það sé aðeins spurning um hvenær en ekki hvort. „Hvað ætla menn að gera þegar innfjarðarrækjan kemur aftur og búið er að loka svæðunum? Rækjan verður ekki veidd á krók, svo mikið er víst."