föstudagur, 15. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Segja hrefnuveiði og hvalaskoðun ekki fara saman

29. janúar 2009 kl. 16:10

Erna Hauksdóttir, framkv.stjóri SAF segir tilfellum þar sem hrefna sést fækka

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) hafa fordæmt ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að heimila auknar hvalveiðar „og með ólíkindum að slík ákvörðun skuli tekin af ráðherra sem er að hætta störfum,“ segir í tilkynningu frá SAF.

Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF segir í samtali við Viðskiptablaðið að hvalveiðar trufli ímynd Íslands erlendis. Hún sagði að þeir sem ynnu við að markaðssetja íslandsferðir yrðu fengju að heyra það frá ýmsum hópum auk þess sem samtökin hafa orðið var við að hópar hafi hætt við að koma hingað til lands vegna þessa.

Hún segir hrefnuveiði undanfarinna ára hafa skaðað hvalaskoðunina mikið og sífellt færri hrefnur sjáist á þeim svæðum sem hvalaskoðunarbátar nýta. Erna segir að fyrir nokkrum árum hefðu hrefnur sést í um 90% tilvika í hvalaskoðunum en nú sjáist hún eingöngu í um 40% tilvika.

Þá segir hún þetta vera mikið vandamál, til að mynda við Faxaflóa þar sem verið að er að veiða hrefnur á svipuðum slóðum og þær eru sýndar.

Aðspurð segir Erna að reynt hafi verið að ná samkomulagi við hrefnuveiðimenn um að þeir veiði á öðrum slóðum en ekkert hafi gengið í þeim viðræðum.

Aðspurð hvort ekki fari saman að skoða og veiða hrefnu, til að mynda ef ferðamenn fengju að smakka hrefnukjöt að lokinni skoðun svara Erna því neitandi.