mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Síldarvinnslan mátti kaupa Berg-Hugin

4. júní 2015 kl. 19:19

Skip Bergs-Hugins, Vestmannaey og Bergey. (Myndi: Guðm. Alfreðsson)

Fyrirtækið sýknað af kröfum Vestmannaeyjabæjar í Hæstarétti.

Hæstiréttur sýknaði í dag Síldarvinnsluna hf. af kröfu Vestmannaeyjarbæjar um að ógilda kaup félagsins á öllum hlutabréfum í Bergur-Huginn ehf. Í dómnum er tekið undir sjónarmið Síldarvinnslunnar að forkaupsréttur sveitarfélagsins náði ekki til þessara viðskipta.

"Niðurstaða Hæstaréttar er mjög skýr og í fullu samræmi við afstöðu okkar frá fyrsta degi. Eftir þrjú ár er staðfest að þeir sem komu að þessum viðskiptum störfuðu innan ramma laganna. Kveðið er mjög skýrt á um það að forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga snýr eingöngu að fiskiskipum en hvorki aflaheimildum né hlutabréfum. Þessi niðurstaða er góð fyrir Síldarvinnsluna,“ segir Gunnþór Ingvason á vef Síldarvinnslunnar.

Í tilkynningu frá Elliða Vignissyni, bæjarstjóra Vestmannaeyja, segir að dómur Hæstaréttar í dag staðfesti að forkaupsréttur sveitarfélaga, samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, sé ekki virkur og þar með sé vörn íbúa gegn skyndilegum og miklum breytingum í atvinnuumhverfi sveitarfélagsins engin. Krafa sjávarbyggða sé að „sú litla byggðarvörn sem þó er í lögum um stjórn fiskveiða sé virt og á henni verði skerpt“. Frá þessu er skýrt á vef RÚV.