mánudagur, 17. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Síldveiðar fara rólega af stað

28. maí 2010 kl. 17:08

Fimm íslensk skip eru nú að síldveiðum innan íslensku lögsögunnar, nánar tiltekið um 180 mílur norðaustur af Vopnafirði. Rólegt mun hafa verið yfir aflabrögðunum en skipin hafa þó verið að fá frá um 100 tonnum í holi og upp í um 200 tonn.

Þetta kemur fram á heimasíðu HB Granda í viðtali við Arnþór Hjörleifsson, skipstjóra á Lundey, sem var að koma á veiðisvæðið síðdegis í dag.

,,Það er misjafnt hve menn draga lengi en það getur verið frá um þremur tímum og upp í um sex tíma. Mér skilst að aðstæður á veiðisvæðinu séu mjög svipaðar og þegar við hófum vertíðina í fyrra. Síldin stendur frekar djúpt yfir hádaginn en fyrir og eftir miðnættið á hún til að skjóta sér upp í nokkra tíma og þá hefur verið best að eiga við hana,“ segir Arnþór.

Tvö önnur skip HB Granda eru að tygja sig á síldina. Ingunn AK átti að láta úr höfn á Akranesi í dag og Faxi RE fer væntanlega til veiða nk. sunnudag.