sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Án sjálfbærni gætum við gleymt þessu

Guðsteinn Bjarnason
5. desember 2018 kl. 19:00

Vestmannaeyjahöfn. MYND/ÓSKAR

Kristinn Hjálmarsson hjá ISF segir ekkert metnaðarfullt við sjálfbærar fiskveiðar hér við land

„Er það metnaðarfullt markmið að íslenskar fiskveiðar séu stundaðar á sjálfbæran hátt?“ spurði Kristinn Hjálmarsson, verkefnastjóri Iceland Sustainable Fisheries (ISF).

„Nei. Það er akkúrat ekkert metnaðarfullt við það. Það felst nákvæmlega enginn metnaður í því að lofa að taka ekki meira úr náttúrunni en hún þolir. Það felst nákvæmlega enginn metnaður í því að lofa að skemma ekki eða eyðileggja í kringum sig.“

Kristinn flutti erindi á Sjávarútvegsráðstefnunni, sem haldin var í Hörpu 15. og 16. nóvember, á málstofu sem bar yfirskriftina: Eru vottanir markaðsaðgangur eða markaðshindranir?

ISF var stofnað árið 2012 af 17 íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum til þess að sjá um sameiginleg kaup fyrirtækjana á MSC-vottunum. Nú eru aðildarfyrirtæki félagsins orðin 53 og nú er svo komið að vel yfir 90 prósent allra veiða hér við land eru með MSC-vottanir og 97 prósent af útflutningsverðmæti þeirra er úr vottuðum veiðum.

„Ísleskur sjávarútvegur getur núna lofað því að 90 prósent af öllum lönduðum sjávaraflaá íslandi er fenginn úr sjálfbært vottuðum veðum. Íslenskur sjávarútvegur getur núna lofað því í gegnum starfið sem unnið hefur verið á vegum ISF og greininni að 97 prósent af útflutningsverðmætum íslenskra sjávarafurða er upprunnið í sjálfbært vottuðum veiðum. Það er þess vegna ekkert metnaðarfullt við það að íslenskur sjávarútvegur sé sjálfbær. Það er raunar forsendan fyrir íslenskum sjávarútvegi að hann sé sjálfbær,“ sagði Kristinn.

„Án sjálfbærni í fiskveiðum getum við nokkkurn veginn gleymt þessu.“