mánudagur, 30. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjarmatröllin meika það

Guðsteinn Bjarnason
19. apríl 2020 kl. 14:00

Ljónfiskur er fögur en ágeng tegund í Atlantshafi, Miðjarðarhafi og Karíbahafi. MYND/EPA

Ágengar tegundir eiga misauðvelt uppdráttar

Alþjóðlegur hópur vísindamanna hefur birt grein um framandi tegundir og segir að útlitið geti skipt sköpum fyrir þær í nýjum heimkynnum.

Á þriðja tug framandi tegunda hafa gert sig heimakomin á íslenskum hafsvæðum undanfarna áratugi. Sumar þeirra ógna því lífríki sem fyrir er.

Þær eiga þó misauðvelt uppdráttar í nýjum heimkynnum og þar hjálpar þeim sumum að vera gæddar sjarma sem hefur áhrif á viðhorf manna til þeirra.

Tveir sérfræðingar á Náttúrustofu Vesturlands, þau Menja von Schmalensee og Róbert A. Stefánsson, hafa verið í samstarfi við alþjóðlegan hóp sérfræðinga um framandi tegundir. Þessi hópur birti 6. apríl síðastliðinn grein í vísindatímaritinu Frontiers in Ecology and the Environment þar sem fjallað er um það hvað glæsibragur og þokki ágengra tegunda hefur mikið að segja fyrir afdrif þeirra.

„Sumar framandi tegundir hafa engin sýnileg neikvæð áhrif en aðrar valda verulegum vandamálum fyrir innlendar tegundir – með afráni, samkeppni um fæðu og búsvæði, eða með því að flytja með sér sjúkdóma og sníkjudýr sem smitast geta í aðrar tegundir,“ segir Menja í samantekt á vef Náttúrustofu Vesturlands.

Útlitið skiptir máli

Misjafnt er þó hvernig þeim gengur að ná fótfestu og þar getur útlitið greinilega skipt máli.

„Samfélög manna eru frekar tilbúin til að taka fallegum og aðlaðandi tegundum opnum örmum en ef þær eru óaðlaðandi. Þetta getur dregið úr líkum á að farið sé í aðgerðir til að hamla gegn útbreiðslu aðlaðandi tegunda, jafnvel þótt slíkar aðgerðir hafi náttúruverndargildi.“

Að sama skapi segir Menja að áhugi almennings og rannsóknaraðila sé hlutfallslega meiri þegar kemur að aðlaðandi tegundum: „Útlit tegunda getur því jafnvel haft áhrif á rannsóknir vísindamanna á þeim.“

Lögð er áhersla á að yfirvöld séu meðvituð um áhrif sjarma ágengra tegunda á stjórnun þeirra, sérstaklega þegar hugað er að skipulagningu og framkvæmd stjórnunaraðgerða gegn ágengum tegundum.