

,,Minn hugur er sá að byggðasjónarmið munu vega mjög þungt í þessari löggjöf,” segir Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra í viðtali við Morgunblaðið um yfirstandandi endurskoðun fiskveiðistjórnunarlaganna. ,,Við höfum byggðakvóta núna, hann er í sjálfu sér barn síns tíma, þó að hann hafi komið að góðum notum.”
Jón minnir á að þótt meginhluta aflaheimilda sé núna úthlutað sem aflahlutdeild á skip sé þeim líka úthlutað með öðrum hætti, svo sem með byggðakvóta, línuívilnun og strandveiðum. ,,Frumvarpið gæti breytt þessum grunni og vægi einstakra þátta í heildarúthlutun. Þegar kemur að hinni almennu úthlutun er gert ráð fyrir að henni sé ráðstafað á grunni gjaldtöku og tímabundinna nýtingarsamninga þar sem ófrávíkjanleg skilyrði verða sett,” segir sjávarútvegsráðherra.