þriðjudagur, 18. janúar 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjávarútvegsstjóri ESB leggur til bann við brottkasti

2. mars 2011 kl. 13:32

Fiskibátur við Skotland.

Lýsir núverandi stefnu ósiðlega og ógnun við lífríkið og afkomu sjávarbyggða

Gildandi reglur Evrópusambandsins skylda sjómenn til þess að kasta fyrir borð þeim fiski sem þeir hafa ekki kvóta fyrir eða er of smár til þess að leyfilegt sé að koma með hann í land. Maria Damanaki sjávarútvegsstjóri ESB hefur nú skorið upp herör gegn þessari stefnu og vill banna brottkast.

Hún flutti ræðu á fundi með fulltrúum aðildarríkja ESB í gær þar sem hún lýsti núverandi stefnu ósiðlega og ógnun við lífríkið og þar með tilverugrundvöll sjómanna, sjávarplássa og sjávarútvegsins í heild. Talið er að allt að helmingi af þeim fiski sem veiddur er í Norðursjó sé kastað í hafið aftur.

Á vef breska útvarpsins BBC er greint frá tillögum sem Damanaki lagði fram á fundinum og stemma eiga stigu við því að fiski sé fleygt ef brottkast verður bannað.

Í fyrsta lagi að dregið verði úr sókn með því að takmarka þann tíma sem skipin mega vera á sjó og afmarka þau svæði sem fiska má á.

Í öðru lagi verði allur landaður fiskur talinn til kvóta.

Í þriðja lagi verði blandaðar veiðar stöðvaðar þegar hámarkskvóti í einni tegund hafi verið veiddur.

Og í fjórða lagi að eftirlit verði aukið með notkun eftirlitsmyndavéla um borð, fjölgun eftirlitsmanna, færslu rafrænna afladagbóka og strangara eftirliti með höfnum.