mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjávarútvegur með mest fryst af höfuðstóli lána

26. október 2009 kl. 15:54

Sjávarútvegsfyrirtæki eru með um 11,5% af heildarútlánum til fyrirtækja og er nær eingöngu um gengisbundin lán að ræða eða 95%.

Þetta kemur fram í riti Seðlabankans um fjármálastöðugleika en rúmlega helmingur gengisbundinna lána er tekinn í lágvaxtagjaldmiðlum, svissneskum frönkum og japönskum jenum, á meðan 25% eru í evrum.

Fram kemur að tæplega 40% útflutnings sjávarafurða eru hins vegar í evrum, fjórðungur í breskum pundum og rúmlega fimmtungur í Bandaríkjadölum. Mjög lítill hluti útflutningstekna er í japönskum jenum og svissneskum frönkum.

„Þetta misræmi í gjaldmiðlasamsetningu tekjuöflunar og útlána getur því valdið erfiðleikum fyrir rekstur sjávarútvegsfyrirtækja ef möguleikar til áhættuvarna eru ekki fyrir hendi,“ segir í skýrslu Seðlabankans en fram kemur að töluvert hátt hlutfall höfuðstóls gengisbundinna lána sjávarútvegsfyrirtækja hefur verið fryst eða um 21% útistandandi lána.

„Kemur það á óvart í ljósi þess að tekjur þeirra eru mestmegnis í erlendum gjaldmiðlum,“ segir í skýrslunni.

„Fyrir þessu gætu verið nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi getur verið að ofangreint misræmi milli gjaldmiðlaskiptingar útflutnings og lána hafi hækkað greiðslubyrði lána umfram hækkun tekna. Í öðru lagi getur verið að bankar séu viljugri til að veita sjávarútvegsfyrirtækjum frystingu en öðrum atvinnuvegum þar sem þeir meta þau fyrirtæki lífvænlegri en önnur. Loks er mögulegt að fyrir tækin séu að leitast eftir að hámarka gjaldeyristekjur sínar með því að geyma greiðslur vegna útflutnings og frysta lánin í von um hagstæðari gengisþróun.“