þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjóðirnir allir uppurnir

Guðsteinn Bjarnason
5. október 2018 kl. 14:42

Embla, einn af bátum Rafnars, á fullri siglingu. MYND/Aðsend

Bátasmiðjan Rafnar flytur alla framleiðslu sína úr landi. Össur Kristinsson hefur lagt allt að fimm milljörðum króna í þróun og hönnun báta sem þykja einstakir í sinni röð.

„Við verðum áfram með hryggjarstykki starfseminnar hér á landi, þróun og rannsóknir og sölustarfsemi. Við erum alls ekkert að hætta starfseminni heima,“ segir Björn Jónsson, framkvæmdastjóri bátasmiðjunar Rafnar.

Tímamót eru samt að verða í sögu fyrirtækisins, sem Össur Kristinsson stoðtækjaframleiðandi stofnaði árið 2005.

„Það sem við erum að gera er svo sem ekkert öðru vísi en það sem mörg íslensk framleiðslufyrirtæki standa frammi fyrir. Við erum að flytja framleiðsluna úr landi, semja við samstarfsaðila um að smíða bæði báta sem við seljum og líka báta sem þeir smíða eftir leyfi frá okkur.“

Bátarnir frá Rafnar eru mjög frábrugðnir því sem áður hefur þekkst. Þetta eru rúmmálsbátar en samt planandi og kjölurinn þannig hannaður að skuturinn grefur sig ekki niður þótt stefnið reisist á ferð. Þeir hafa hreinlega slegið í gegn hjá öllum sem prófað hafa.

Landhelgisgæslan er nú þegar komin með einn bát frá fyrirtækinu og er að fá annan, Björgunarsveit Kópavogs er búin að fá bát og björgunarsveit á Fáskrúðsfirði sömuleiðis. Þá hafa tveir farið niður í Persaflóa og nokkrir eru á leiðinni í Karíbahafið.

Bankað á þilið

Össur Kristinsson, stofnandi fyrirtækisins, skýrði frá því á ráðstefnu um framtíð siglinga, sem haldin var í Sjómannaskólanum í síðustu viku, að ekki hefði tekist að tryggja fjármagn til að halda áfram framleiðslu hér á landi. Hann hafi lengi reynt að vekja áhuga manna hér heima á möguleikum þessarar nýju bátategundar, „banka á þilið“ eins og hann orðar það, en viðbrögðin hafi oftast verið dræm.

„Þetta er allt saman kostað af okkur og við höfum lagt kannski eitthvað á milli 4 og 5 milljarða í þetta verkefni. En nú eru sjóðirnir þurrausnir og þá bankaði ég á þilið, spurði hvort ekki sé einhver þarna sem vill koma og fjárfesta í þessu svo við getum haldið áfram.“

Hann segir marga hafa sýnt áhuga, ekki síst erlendis frá, en það komst aldrei lengra. „Svo við erum núna að loka smíðastöðinni í Vesturvör og einbeita okkur að því að selja framleiðsluleyfið erlendis.“

Fyrirtækið er nú að ræða við aðila í Grikklandi, Bretlandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum og víðar um framleiðslu bátanna. Áfram verður þó unnið hér heima að frekari þróun þeirra og útfærslu.