mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjófarendur hlusti á neyðarrás 16

7. maí 2014 kl. 15:55

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.

Talsvert annríki í stjórnstöð Gæslunnar eftir að strandveiðarnar hófust.

Strandveiðitímabilið hófst á miðnætti þann 5. maí og hefur verið talsvert annríki í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar síðastliðna daga, að því er fram kemur á vef Gæslunnar. Um 750 skip og bátar hafa verið á sjó sem er um 200-300 fleiri heldur en undanfarnar vikur.

Veiðarnar hafa farið ágætlega af stað og aðeins minni háttar óhöpp komið upp. Eldur kom upp í báti á Breiðafirði án þess að manntjón hlytist af og hefur nokkrum verið gert að sigla í land þar sem staðsetningarbúnaður þeirra var ekki í lagi.  Búast má við mikilli ásókn miðað við reynsluna síðustu ár.

Landhelgisgæslan minnir skip og báta á að hlusta á neyðarrás 16 á VHF en það er mikilvægur þáttur í öryggismálum sjómanna að Landhelgisgæslan geti leitað til þeirra sem eru að veiðum á sama svæði ef skip eða bátar lenda í óhöppum.

Landhelgisgæslan er reiðubúin fyrir tímabilið og til taks að aðstoða alla sem á þurfa að halda. Nánar um strandveiðarnar á heimasíðu Fiskistofu.