þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjómenn standi á rétti sínum

6. júní 2021 kl. 13:00

Valmundur Valmundsson formaður SSÍ. Mynd/HAG

Valmundur Valmundsson, formaður SSÍ, skrifar, í tilefni sjómannadagsins.

Þegar þessi pistill er ritaður er ekki ljóst hvort sjómenn geta haldið Sjómannadaginn með venjubundnum hætti. Í fyrra var ástandið svipað. Hjá flestum var hann blásinn af eða haldinn í mjög breytti og lágstemmdari mynd. Covid-19 er búið að taka ýmsa tolla hjá okkur. Allir hafa þurft að færa fórnir í ástandinu. Ekki síst sjómenn þessa lands. Rík ástæða er til að hrósa sjómönnum og útgerðinni hvernig til hefur tekist að halda smitum frá skipunum með örfáum undantekningum sem við öll þekkjum. Samt verðum við að passa að Covid ástandið verði ekki notað sem tæki til að ganga á rétt sjómanna og launafólks. Ég hvet sjómenn að standa á rétti sínum ef þeim finnst á sig hallað á einhvern hátt í þessu ástandi.

Sjómannadagshelgin hefur undanfarin ár markað upphaf bæjarhátíða á Íslandi. Fyrsta helgin í júní er Sjómannadagshelgin. Áður fyrr var Sjómannadagurinn sjálfur, sunnudagurinn, eini dagurinn sem sjómenn áttu frí. Í Eyjum var Sjómannadagsballið á sunnudegi og ræst á sjó á mánudagsmorgni. Nú eru hátíðahöldin alla helgina með allskonar dagskrá fyrir alla aldurshópa. Byrja jafnvel á fimmtudegi fyrir Sjómannadag þegar allt lék í lyndi.

Nýr kjarasamningur

Baráttumál sjómanna nú um stundir eru að ná nýjum kjarasamningi við útgerðarmenn. Sjómenn hafa verði með lausan kjarasamning frá því 1. desember 2019. Í 18 mánuði! Síðast þegar samið var, 2017 höfðu samningar verið lausir í rúm sex ár. Þetta er auðvitað ekki boðlegt ástand. Deila okkar við útgerðina er nú undir handleiðslu Ríkissáttasemjara þar sem haldnir hafa verið nokkrir fundir. Sjómannasamband Íslands er í samfloti með Félagi skipstjórnarmanna í þessum viðræðum. Vélstjórarnir VM, Sjómannafélag Íslands og Sjómanna- og vélastjórafélag Grindavíkur eru saman hjá Sátta með sín mál. Kröfur allra aðila sjómannamegin eru svipaðar en nokkur blæbrigðamunur er þó á.

Helstu kröfur Sjómannasambands Íslands og FS eru hækkun skiptaprósentu úr 70% í 76% þegar afla er landað innanlands og sú hækkun verði fest niður. Þannig að olíuverðs viðmiðið falli út og heyri sögunni til. Útgerð greiði 11,5% mótframlag í lífeyrissjóð eins og er orðið viðurkennt lágmark á almenna markaðnum. Fiskverð í beinum viðskiptum verði að fullu markaðstengt eða hækki verulega. Þetta eru helstu kröfurnar en vissulega eru þær fleiri. Ekki skal fjölyrt um kröfur útgerðarmanna hér.

Rökstuðningur fyrir hækkun á skiptaprósentunni og að olíuverðs viðmiðið fari út er að þegar það var fyrst sett á 1987 var olíukostnaður útgerðanna mun hærri sem hlutfall af aflaverðmæti en nú er.

Hófleg krafa

Í umhverfisskýrslu SFS frá árinu 2017 kemur fram að magn olíu sem fiskiskipastóllinn brennir, hefur lækkað um 35,2% milli áranna 1990 og 2016.

Okkur reiknast til að olíukostnaður núna sé um 8,5% af aflaverðmæti en var rúm 10% þegar viðmiðið var sett í 76 prósent um mitt ár 1987. Að þessu sögðu er krafan um 76% til skipta ekki úr lausu lofti gripin, heldur er hún hófleg og sanngjörn þó hún inniberi einnig 3,5 % í lífeyrissjóð.

Svo minni ég á að laun sjómanna koma til frádráttar þegar grunnur veiðigjalda er fundinn. Því má álykta sem svo að ef laun sjómanna hækka myndu veiðigjöldin lækka. Veiðigjöld eru skattur á umframhagnað útgerðarinnar samkvæmt laganna hljóðan. Áður en sá skattur er ákvarðaður er allur kostnaður við veiðarnar dreginn frá, þar með talinn launakostnaður. Það sem eftir stendur er grunnurinn sem notaður er við útreikninginn.

Kæru sjómenn, fjölskyldur þeirra og landsmenn allir nú förum við að sjá fyrir endann á þessu Covid ástandi og klöppum okkur á bakið fyrir árangurinn og þolinmæðina. Ég óska ykkur gleðilegrar hátíðar á Sjómannadaginn hvar sem þið verðið stödd.