sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skelfileg þróun í öryggismálum sjómanna

3. júní 2009 kl. 10:09

segir Félag skipstjórnarmanna um þyrlumál Gæslunnar

Aðalfundur Félags skipstjórnarmanna haldinn í Reykjavík 29.maí 2009 mótmælir harðlega þeirri skelfilegu þróun  sem átt hefur sér stað í öryggismálum sjómanna og skorar á stjórnvöld að sjá til þess öryggi sjófarenda verði tryggt, segir í ályktun fundarins.

Í greinargerð með ályktuninni segir:

,,Frá því að efnahagskreppan skall á í október síðastliðinn hefur  dregið mjög úr þjónustu Landhelgisgæslunnar og þar af leiðandi er öryggis sjófarenda við Ísland stórlega ógnað.  Seinnihluta síðasta árs var dregið úr úthaldi varðskipa, starfsfólki  fækkað og síðla sumars  fækkar þyrluáhöfnum úr rúmlega sex í fimm.

Varðskip og loftför Landhelgisgæslunnar eru björgunartæki og sjúkraflutnings einingar sjómanna. Með fækkun í viðhaldsdeild og uppsögnum á áhöfnum sem taka gildi 1.júní og 1. september liggur fyrir að þjónusta við sjófarendur skerðist stórlega.  Þegar uppsagnirnar taka gildi í september verður ekki mögulegt að hafa tvær þyrlur til taks nema 6-7 mánuði á ári, en það er forsenda þess að þyrlurnar fari út á sjó.

Þetta þýðir að sjófarendur geta ekki vænst sjúkraflutnings- eða björgunarþjónustu með þyrlum nema 5-6 mánuði. Þetta er algjörlega óásættanleg meðferð og algjör vanvirða við sjómenn, ekki síst nú á tímum þegar fiskiveiðar eru ein tryggasta stoð íslensku þjóðarinnar.

Þó félagsmenn FS skilji vel vanda  stjórnvalda þá geta þeir ekki unað því að öryggi þeirra sé skert með þessum hætti og krefjast þess að Landhelgisgæslunni verði tryggt fjármagn til að sinna hlutverki sínu með tryggum hætti, allt árið um kring,” segir í ályktun aðalfundar Félags skipstjórnarmanna.