fimmtudagur, 13. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skip HG fiskuðu fyrir fjóra milljarða

11. janúar 2016 kl. 11:24

Júlíus Geirmundsson ÍS, eitt skipa HG, fiskaði fyrir 1,9 milljarða árið 2915, (Mynd: Þorgeir Baldurssojn)

Nýsmíðaður togari væntanlegur í lok sumars.

Metár varð í afla og aflaverðmæti skipa Hraðfrystihússins Gunnvarar í Hnífsdal á nýliðnu ári. Skipin öfluðu 14.054 tonna að verðmæti 4.084 milljóna króna samanborið við 12.277 tonna afla  að verðmæti 3.248 milljónir króna árið 2014. Þetta er 14,5% aukning í afla og 26% aukning í aflaverðmæti.

Þessa aukningu í afla og aflaverðmæti má einkum rekja til þess að enginn togara fyrirtækisins fór í slipp á árinu, góðrar kvótastöðu um áramót og lítilsháttar aukningu í kvóta. Valur og Örn stunduðu rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi og öfluðu vel.

„Síðasta ár var gjöfult fyrir sjósóknina. Ef við horfum á Pál Pálsson þá hefur verið stutt að fara og mikill afli á sóknardag sem þýðir minni tilkostnað við að ná í aflann,“ segir Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri HG í samtali á vefnum bb.is.

Einar Valur segir að upphafi árs sé erfitt að segja til um hvernig árið í ár eigi eftir að þróast. Þó séu horfur á lágu olíuverði og ástand mikilvægra stofna eins og þorsks sé metið mjög gott, en erfiðara er að segja til um horfur á fiskverði. Fiskverð var almennt mjög gott í fyrra ef verð á makrílafurðum er undanskilið en íslensk sjávarútvegsfyrirtæki þurfti að leita á ódýrari markaði eftir að Rússlandsmarkaður lokaðist í kjölfar innflutningsbanns Rússa. 

Hvað fiskverði og aflabrögðum líður er ljóst að árið verður sögulegt hjá HG en nýr Páll Pálsson siglir inn sundin blá í loka sumars. „Það eru spennandi tímar í sumar með nýju skipi,“ segir Einar Valur.

Sjá nánar afla og aflaverðmæti einstakra skipa HG HÉR.