mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skipið lagðist á hliðina undan veðrinu

6. júní 2015 kl. 11:21

Birgir Sigurðsson fyrrum skipstjóri í Neskaupstað. (Mynd: Smári Geirsson).

Birgir Sigurðsson var skipstjóri á Gerpi NK í Nýfundnalandsveðrinu.

Birgir Sigurðsson var í sínum fyrsta túr sem skipstjóri, þegar hann lenti í Nýfundnalandsveðrinu snemma árs 1959, þá 29 ára gamall, en hann var þá skipstjóri á togaranum Gerpi NK frá Neskaupstað. Birgir lýsir þessari lífsreynslu  í viðtali við Smára Geirsson í sjómannadagsblaði Fiskifrétta sem kom út nú fyrir helgina. Hér er stuttur kafli af lýsingu hans.

„Á meðan gengið var veiðarfærunum herti vindinn og fljótlega var komið ofsarok með 10-12 gráðu frosti. Vindurinn olli mér áhyggjum en mestar voru áhyggjurnar af sjávarhitanum. Hann var vel undir frostmarki og það þýddi ísingarhættu og við óttuðumst ekkert meir en ísinguna sem hlóðst á skipið og gæti leitt af sér breytingu á þyngdarpunkti þess þannig að það ylti. 

Skipið fór fljótt að þyngjast þegar ís tók að hlaðast á það. Hafist var handa við að berja ís af hvalbaknum og brúnni á meðan verið var að gera sjóklárt og því haldið áfram af öllum krafti sem skipverjar áttu til. Ég hafði líka miklar áhyggjur af hlerunum í brúargluggunum sem voru óþéttir og myndu ekki þola mikið álag. Niðurstaða mín var skýr: það varð að venda skipinu og freista þess að sigla til suðurs í hlýrri sjó þar sem ísingarhætta væri minni. [.....] 

Fyrsta tilraun til að venda skipinu gekk ekki vel; skipið lagðist á hliðina undan veðrinu og sögðu vélstjórarnir mér síðar að sjór hefði komið niður um skorsteininn. 

Önnur tilraun gekk betur; þá var keyrt á fulla ferð og þegar dúraði örskotsstund tókst að snúa skipinu. Síðan hófst siglingin undan veðrinu og að því kom að við náðum í hlýrri sjó þannig að allri hættu var afstýrt.“

Sjá nánar viðtal við Birgi Sigurðsson um viðburðarríkan sjómannsferil hans í sjómannadagsblaði Fiskifrétta.