sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skipið sem gleymdist í Brexit

Guðsteinn Bjarnason
19. apríl 2021 kl. 07:00

Kirkella hefur verið gert út á þorskveiðar í Norðurhöfum. MYND/UK Fisheries

Úthafsveiðiskipið Kirkella enn verkefnalaust.

Útgerð breska úthafsveiðiskipsins Kirkella spyr hvers vegna breskum og norskum stjórnvöldum hafi enn ekki tekist að ná samkomulagi um úthafsveiðar Breta í norsku hafsvæði.

„Hvers vegna eru stjórnvöld svona sátt við að gefa upp á bátinn síðustu leifarnar af iðnaði sem á sér sögu aftur í kynslóðir og er svo óaðskiljanlegur þáttur í menningu og samfélagi Humberside-svæðisins?“ spyr Barney White-Spunner, en hann er formaður ráðgjafanefndar UK Fisheries sem gerir út Kirkella, stærsta togara Bretlands.

White-Spunner segir að fyrir ári hafi áhöfnin á Kirkella séð fram á betri tíð með Brexit. Slík voru loforðin sem komu frá breskum stjórnvöldum: „Nú sitja þeir eftir með spurningar einar, og það er fyrir löngu kominn tími til þess að stjórn landsins komi með svör.“

Hann spyr hvað hafi orðið um þessi loforð og hvort bresk stjórnvöld séu hreinlega ófær um að standa í samningsgerð við Noreg.

Samningsgerðin er flókin því Norðmenn eru á móti með kröfur um aðgang að breskum mörkuðum, auk annars. Þar á ofan eru skiptar skoðanir meðal breskra útgerða því hagsmunir breskra upphafsveiðiskipa eru allt aðrir en hagsmunir bolfisksveiðinnar.

Kirkella er eina úthafsveiðiskipið sem enn er gert út frá Bretlandi. Útgerðin er í sameiginlegri eigu Samherja og hollenska útgerðarfyrirtækisins Parlevliet & van der Plas.

Skipið hefur stundað veiðar sínar einna mest í Noregshafi og við Svalbarða en eftir að Bretar gengu endanlega úr Evrópusambandinu um áramótin síðustu situr útgerðin eftir kvótalaus á þessum hafsvæðum.

Bretar, Norðmenn og Evrópusambandið luku í mars gerð þríhliða samnings um fiskveiðar í Norðursjó, en út af stóð þá tvíhliða samningur Breta og Norðmanna.