fimmtudagur, 24. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skipt um aðra aðalvélina í varðskipinu Þór

20. febrúar 2012 kl. 11:29

Varðskipið Þór (Mynd: LHG).

Kostnaður allt að einn milljarður króna sem fellur á Rolls Royce

Rolls Royce framleiðandi véla varðskipsins Þórs hefur ákveðið að skipta um aðra aðalvél skipsins þar sem ekki hefur tekist að finna orsakir titrings sem verið hefur í vélinni umfram staðla vélaframleiðandans. Samkvæmt verkáætlun Rolls Royce mun skipið verða tilbúið til afhendingar að nýju eftir vélaskipti, prófanir og úttektir flokkunarfélags sem er Loyds Register að 6 vikum liðnum frá 20. febrúar að telja eða þann 2. apríl nk.

Samkvæmt áætlunum Rolls Royce er gert ráð fyrir að vélin verði rifin í parta og tekin aftur úr skipinu upp um lestarlúgu og nýrri vél komið fyrir með sama hætti. Þetta er mikil framkvæmd og má búast við að kostnaður Rolls Royce við framkvæmdina nemi allt að einum milljarði íslenskra króna.

Áætlanir Landhelgisgæslunnar höfðu gert ráð fyrir að Þór yrði við eftirlit og löggæslu innan íslenska hafsvæðisins og er þetta því afar bagalegt en gerðar hafa verið ráðstafanir til að tryggja viðveru varðskipanna Ægis eða Týs alla þá daga sem áætlað var að skipinu yrði siglt, segir í frétt á vef Gæslunnar.