fimmtudagur, 24. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skrokkurinn verður rafhlaða

Guðsteinn Bjarnason
15. desember 2019 kl. 07:00

Líkan rafknúins báts í Reykjavíkurhöfn. MYND/Navis

Rafknúinn þrjátíu tonna bátur er tilbúinn til framleiðslu hjá Navis. Þá er fyrirtækið að búa til báta úr batteríum í samstarfi við GreenVolt.

Stuttu fyrir mánaðamót var lítill bátur, eins metra langur, settur á flot í Reykjavíkurhöfn. Hann var gerður úr koltrefjum sem höfðu verið meðhöndlaðar þannig að þær virka sem rafhlaða. Báturinn var því knúinn afli úr sjálfum sér.

Kári Logason, skipaverkfræðingur hjá Navis, segir þessa tilraunasiglingu á höfninni hafa gengið vel. Næst er stefnan sett á stærri báta.

Navis er verkfræði- og ráðgjafafyrirtæki sem hefur aðstöðu í Sjávarklasanum og vinnur að hönnun skipa. Í Sjávarklasanum er einnig fyrirtækið GreenVolt sem hefur þróað nanótækni sem nota má til að gera koltrefjar að rafhlöðum. Samvinna þessara tveggja fyrirtækja hófst þegar Þór Sigfússon, stofnandi Sjávarklasans, sem vissi hvað fyrirtækin voru að fást við sitt í hvoru lagi, sagði tíma kominn til þess að starfsfólk þeirra færi að tala saman.

Á Sjávarútvegsráðstefnunni í nóvember greindi Bjarni Hartarsson, félagi Kára hjá Navis, frá þessu verkefni:

„Þeir hjá GreenVolt eru búnir að þróa þessa nanótækni sína sem þeir nota til að húða koltrefjar þannig að plúsinn og mínusinn verða sitthvoru megin á koltrefjunum. Svo verða koltrefjarnar notaðar sem smíðaefni,“ sagði Bjarni. „Sem þýðir að í framtíðinni getum við jafnvel smíðað skrokkinn á skipinu okkar, og skrokkurinn er rafhlaðan. Ef þetta gengur eftir er það stærsta bylting sem hefur sést í rafhlöðum.“

Rafhlöðurnar verða kjölfesta
Á ráðstefnunni ræddi Bjarni almennt um rafvæðingu íslenska flotans og greindi frá því að fyrirtækið sé langt komið í hönnun á 30 tonna rafknúnum bát.

„Fyrir rúmu einu og hálfu ári fengum við styrk frá Tækniþróunarsjóði og gátum með honum farið á fullt að hanna þennan bát og fengið auka mannskap,“ sagði Bjarni.

Hann segir þennan bát verða einstæðan á heimsvísu að mörgu leyti, fyrsta íslenska rafknúna fiskveiðibátinn.

„Enginn rafmagnsbátur af þessari stærðargráðu hefur verið hannaður, en við erum á lokastigi í hönnunarferlinu og smíði á bátnum getur hafist snemma á næsta ári.“

Báturinn yrði eitthvað dýrari en sambærilegur bátur, en munurinn sé þó ekki nema tíu til tuttugu prósent. Öðru máli gegnir enn sem komið er um smærri báta þar sem kostnaðurinn yrði jafnvel margfalt verð sambærilegs báts.

Lítil ljósavél þarf reyndar að vera um borð í þessum bát, ekki síst vegna þess að túrarnir eru misjafnir.

„Í stystu túrunum gætu þeir siglt 100 prósent á rafmagni. Um leið og það eru orðnir lengri hjálpar ljósavélin við að koma bátunum út á miðin, en að langstærstum hluta veiðitímans gengur hann 100 prósent á rafmagni. Það er bæði umhvrfisvænt og líka gott fyrir áhöfnina um borð. Það er minni titringur og hávaði og loftmengun er lítil meðan unnið er um borð.“

Hann segir það líka hafa kosti að fyrirkomulagið um borð verði allt mun opnara heldur en er í dag.

„Við höfum batteríin neðst í kjölnum og þannig virka þau sem kjölfesta. Það verður engin aukaþyngd sem fylgir þessu.“

Bjarni Hjartarson og Hafsteinn Helgason á Sjávarútvegsráðstefnunni í Hörpu. MYND/Sjávarútvegsráðstefnan

Ammóníak á skipin í stað olíu

Á sömu málstofu flutti Hafsteinn Helgason hjá verfræðistofunni Eflu einnig erindi þar sem hann fjallaði um þær breytingar sem framundan eru á orkugjöfum í sjávarútvegi.

Hafsteinn fullyrðir að innan fáeinna áratuga megi búast við því að að ammóníak taki við af olíunni sem eldsneyti á skipum. Vel sé hægt að framleiða það í nægu magni hér á landi.

Hann sagði vel hafa tekist til við að hagræða í greininni, sem kunnugt er, og henni hafi tekist að draga úr olíunotkun hraðar en í atvinnulífinu almennt.

„Núna tekst mönnum að ná fleiri kílóum af fiski með tiltölulega fáum skipum miðað við það sem var,“ sagði hann. „En það sem þið vitið eflaust ekki er að við náum kannski 3-6 kílóum af frystum afurðum í frystitogara út á hvert kíló af olíu sem skipið brennir. Þetta er gríðarlega há tala. Þetta sýnir líka hversu greinin er viðkvæm fyrir hækkunum á oliuverði.“

Hann sagði sjávarútveginn þurfa skýra framtíðarsýn, áræðni og samheldni, enda sé ljóst að „greinin verður að hætta að nota það eldsneyti sem hún notar í dag innan nokkurra áratuga. Kannski eru þeir bara tveir.“

Hættulegt en nothæft
Hafsteinn sagði Alþjóðasiglingamálastofnunina spá því að ammóníakið komi inn í kringum 2035, en líklega þó enn fyrr.

„Í dag er ekkert skip sem brennir ammoníaki okkur vitandi,“ en tvö stór skipafélög, MAN og J-ENG, eru langt komin með prófanir á skipavélum. Þau reikna með því að eftir tvö ár verði þessar vélar tilbúnar á markað.

„Það er alveg ljóst að menn geta verið ósammála og sagt þetta hættulega gastegund, mengandi, tærandi, ertandi, en málið er að við erum að fá ammóníakið inn sem eldsneyti.“

Metanól er einnig á uppleið og nú þegar notað í skipum. Að sögn Hafsteins eru þrettán slíkar vélar í pöntun hjá MAN.

Innlend framleiðsla
Á meðfylgjandi myndriti frá Alþjóðasiglingamálastofnuninni má sjá spá um eldsneytisnotkun skipa næstu áratugina, miðað við þau markmið sem stofnunin gefur sér. Þar sést að eftir að svartolíunotkun verður bönnuð í byrjun næsta árs tekur hreinni díselolía fyrst við að mestu (gula svæðið) en hún víkur síðan smám saman fyrir fljótandi náttúrugasi (bláa svæðið) og síðar ammóníaki.

Hafsteinn segir náttúrugasið af ýmsum ástæðum ekki henta vel fyrir íslenska flotann, þannig að hér sé það ammóníakið sem hljóti að verða ofan á.

Vel verði mögulegt að framleiða hvort heldur sem er metanól eða ammóníak hér á landi í nægum mæli til þess að það dugi á fiskiskipaflotann.