miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skyldu eftir 50 þús. tonn af kvótanum

3. ágúst 2011 kl. 11:12

Danir náðu ekki að veiða leyfilegan sandsílaafla

Danski uppsjávarflotinn gafst upp á sandsílaveiðunum í ár töluvert áður en kvótinn var uppurinn. Skipin máttu veiða 323.000 tonn en þegar veiðitímanum lauk 31. júlí síðastliðinn voru ennþá 50.000 tonn eða 15% eftir af veiðiheimildunum.

 Veiðarnar náðu hámarki þegar í aprílmánuði en þegar kom fram í júní urðu þær svo dræmar að stærri skipin hættu veiðum þar sem þær borguðu sig ekki lengur. Meginástæðan fyrir lélegu fiskiríi er sögð sú að settar hafa verið nýjar reglur um veiðar í Norðursjónum sem skipta miðunum upp í fleiri veiðisvæði en áður og sum þessara svæða hafa verið lokuð fyrir veiðum, að því er fram kemur í frétt í Fiskeribladet/Fiskaren.

 Danir hafa yfir að ráða næstum öllum sandsílakvóta Evrópusambandsins.