miðvikudagur, 11. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sleðahundum í Grænlandi stórfækkar

12. nóvember 2013 kl. 12:35

Sleðahundar í Grænlandi. (Mynd af vef grænlenska útvarpsins):

Orsakirnar eru taldar breyttir veiðihættir og dýrt hundafóður.

Tölur frá dýralæknisembættinu í Grænlandi sýna að sleðahundum í landinu hefur fækkað úr 22.000 í 15.000 á síðustu tíu árum. Fyrir tveimur áratugum voru sleðahundarnir raunar 31.000 talsins þannig að fækkunin á þessum tíma nemur 30%. 

Haft er eftir dýralækni á vef grænlenska útvarpsins að ein skýringin á fækkun hundanna sé sú að veiðimenn noti í ríkara mæli snjósleða í stað hefðbundinna sleða með hundum fyrir og hafi auk þess snúið sér meira að fiskveiðum á bátum en áður.

Þá er bent á að þeir sem ekki hafi möguleika á að veiða sel, fisk og rostung þurfi að kaupa rándýrt hundafóður í verslunum. Eigi menn 10-20 hunda sé af því gríðarlegur kostnaður. Ennfremur er tiltekið að vegna loftslagsbreytinga hafi ísinn hopað og möguleikar á selveiðum þar með dregist saman. 

Samtök sleðaakstursmanna í Grænlandi ætla að halda námskeið í desember þar sem ástandið verður rætt.