fimmtudagur, 27. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Slökkt á Vitanum vegna fjárskorts

Guðjón Guðmundsson
11. júní 2019 kl. 08:00

Vel er haldið utanum það sem á land kemur en bent hefur verið á misfellur í hagtölum hvað varðar útflugning sjávarafurða. Mynd/Alfons Finnsson

Misfellur í hagtölum um íslenskan sjávarútveg.

Eitt þeirra verkefna Matís, sem telja má mikilvægt en hefur þurft að sitja á hakanum vegna fjárskorts, er rafræn meðferð upplýsinga á útflutningi sjávarafurða,  Vitinn. Margir hafa í gegnum tíðina bent á misfellur í hagtölum hvað varðar fiskútflutning og misræmi milli úthlutaðra aflaheimilda og hvernig þær raðast upp sem útflutningur í hagtölum.

Drifkrafturinn í þessu verkefni var Páll Gunnar Pálsson sem nýlega lét af störfum hjá Matís. Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri hjá Matís, segir að Matís og aðrir hagsmunaaðilar hafi bent á misfellur í hagtölum allt frá árinu 2012. Auk Matís hafa Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Hagstofan, Tollstjóraembættið, Icelandic Group, Iceland Seafood International, Brim, áður Ögurvík nú Útgerðarfélag Reykjavíkur, HB Grandi og Utanríkisráðuneytið komið að verkefninu. Eitt dæmi um þetta er flokkunin „ýmsar tegundir“. Í hagtölum kemur réttilega fram að þorskur er verðmætasta útflutningstegundin, þá makríll en „ýmsar tegundir“ er talin upp sem þriðja verðmætasta útflutningstegundin árið 2014. Arnljótur segir að skýringar á þessu gætu hugsanlega verið skortur á samspili  milli vöruþróunar sem fer fram í landinu og hagtalna. Nýir vöruflokkar og nýjar vörutegundir birtast ekki samstundis í hagtölum, má þar nefna vörur sem verða til sem með aukinni áherslu á meiri nýtingu aflans. Upplýsingaflæði milli aðila skorti.

Innan aflamarkskerfisins eru fjórum tegundum karfa úthlutað og afla landað,  þ.e. litla karfa, djúpkarfa, úthafskarfa og gullkarfa en í útflutningstölum er eingöngu getið karfa. Íslenska tollskráin gerir engan greinarmun, en sú evrópska vill að innflytjendur geri greinarmun á gullkarfa og úthafskarfa.

„Stóri markaðurinn“ Holland

„Við þróuðum í samstarfi við fyrirtæki aðferðafræði sem byggir á hugtakasafni fiskiðnaðarins sem við teljum að leysi þetta mál. En okkur skortir fjármuni til þess að ljúka verkefninu. Við höfum kallað afurð þess Vitann og það snýst um breytingar á skráningu sjávarfangs og allt utan umhald þar er greint frá því hvernig vinna mætti skráningu með öðrum og skýrari hætti án þess að auka flækjustigið.. Margir hafa til að mynda bent á það hve Holland virðist áberandi í útflutningi okkar á sjávarafurðum sé tekið mið af hagtölum. Skýringin á þessu er sú að í Hollandi er stór umskipunarhöfn. Endanlegur kaupandi vörunnar sem þangað er flutt er oft ekki skráður. Ef menn vissu ekki betur og tækju fullkomið mark á hagtölunum gætu þeir farið flatt á því að efna til stórsóknar í markaðsmálum fyrir íslenskar sjávarafurðir í Hollandi. Hagtölurnar gefa það til kynna að mikið sé selt af sjávarfangi til þangað en raunin er allt önnur. Við viljum vita hvað er í gangi“

Arnljótur segir að þetta vilji menn gjarnan bæta þessa úrvinnslu því með því væri hægt að taka skýrari ákvarðanir til dæmis hvað varðar markaðsmál, aðgang að mörkuðum og síðast en ekki síst verðmætar ákvarðanir um áherslur í rannsóknum og þróun

„Það skiptir máli að geta sýnt fram á að héðan séu viðskipti við ákveðin lönd til dæmis ef fyrir dyrum standa samningaviðræður eða breyting á samskiptum ríkja. Það er nauðsynlegt að hafa aðgang að sögu slíkra viðskipta.“

Til stóð að fara á fullt í verkefnið á árinu 2017 en það sama ár dróst starfssemi Matís saman og þurfti meira að segja að grípa til uppsagna. Vitinn var eitt af þeim verkefnum sem ýtt var til hliðar, hjá Matís, en verkefnið er nú hýst hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Áætlaður kostnaður við að innleiða niðurstöður og koma afurðinni í almenna notkun er um 30 milljónir króna.