sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Smíðaðir í Tyrklandi en kláraðir í Njarðvík

Guðjón Guðmundsson
27. júní 2021 kl. 13:00

Þráinn Jónsson, framkvæmdastjóri Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur. Mynd/GuGu

Skipasmíðastöð Njarðvíkur hefur smíði á stálbátum.

„Fyrstu hugmyndir um smíði öflugs báts í krókaaflamarkskerfinu kviknuðu fyrir u.þ.b sex árum,” segir Þráinn Jónsson, framkvæmdastjóri Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur. „Síðan höfum við verið að skoða hvaða möguleika við hefðum til að smíða öflugan og öruggan bát sem uppfylla myndi kröfur varðandi öryggi sjómanna og styrkleika sem við teljum að svona bátur þurfi að hafa.”

„Reynsla okkar af viðgerðum og viðhaldi báta og skipa í 76  ár er gríðarlega mikilvægur þáttur í vali okkar. Það var svo á 75 ára afmæli Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur, á síðasta ári,  sem búið var að teikna bátinn og finna samstarfsaðila í Tyrklandi til að smíða skrokk sem við teljum að uppfylli okkar kröfur varðandi styrk, öryggi, gæði og verð,” segir Þráinn.

Báturinn er samstarfsverkefni Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur og Akkan-Maritime í Tyrklandi en hann er hannaður af Ráðgarði Skiparáðgjöf í samstarfi við Skipasmíðastöð-Njarðvíkur. Skrokkurinn kemur innréttaður til landsins með hluta vélbúnaðar ófrágenginn en skrokkurinn er innan við 30% af heildarsmíðinni.

Þráinn segir bátinn verða með tvær 214 kW aðalvélar sem báðar eru með öflugri vökvadælu og 41 kw ásrafal og 20 kW ljósavél. Skrúfan verður 1,7 metrar að þvermáli. Hún er vökvadrifin og snúningshraðinn einkar lágur eða 250-270 sn/mín sem gefur allt að 20% eldsneytissparnaði miðað við aðra báta af svipaðri stærð. Stýri bátsins er mjög öflugt eða 1,5 fermetrar sem er u.þ.b. 3 sinnum stærra en á sambærilegum bátum.

Sterkir bátar

Báturinn ber vinnuheitið SKN 8 og tekur 60 kör í lest, sem er meira en aðrir bátar í krókaaflamarkskerfinu. Þráinn segir að með litlum breytingum sé hægt að aðlaga hönnun bátsins fyrir aðra markaði þar sem aðrar reglur gilda en hér á landi. Með því að lengja bátinn t.a.m. um 1,25 metra tekur hann 75 kör í lest en yrði þó enn undir 15 metrum. Þessi útfærsla gæti hentað fyrir útgerðir í Grænlandi og Noregi og fleiri löndum þar sem útgerðir eru einungis bundnar af því að bátarnir séu undir 15 metrum.

„Tyrkland er spennandi kostur sem smíðastaður og samstarfsaðili okkar um þessar mundir.  Bæði er gífurleg þekking á skipasmíðum á stórum svæðum meðfram ströndum landsins og verðið eru mjög samkeppnisfært vegna mikillar gengislækkunar tyrknesku lírunnar.”

Þráinn segir ekkert útlit fyrir að það breytist á næstunni og þess vegna geti Skipasmíðastöð Njarðvíkur boðið þessa sterku vertíðarbáta á verði sem er fyllilega samkeppnisfært við sambærilegar nýsmíðar úr plasti.

Tilbúinn á línuveiðar með 20.000 króka á rekkum, krana, krapavél og fullkomnum tækjapakka í brú – sem sagt fullbúnum á veiðar, kostar hann á bilinu 370-380 milljónir króna.

Þrír mánuðir á bát

Þetta er upphafið að samstarfi Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur og Akkan-Maritime í Tyrklandi. Mun hagkvæmara sé að láta smíða skrokkinn sjálfan úti en hérna heima en eins og fram hefur komið er hann innan við 30% af heildarsmíðinni. Stóru kostnaðarliðirnir eru vélbúnaður, búnaður í brú, línukerfi og krapabúnaður. Línukerfið verður frá Mustad og krapakerfið annað hvort frá Kapp ehf. eða Kælingu ehf. Svo bætist við uppsetning á krana, vökvakerfum,frágangur á rafmagni og öðrum búnaði. Skipasmíðastöð Njarðvíkur áætlar að 10 manns starfi við hvern bát í allt að þrjá mánuði.

„Við munum geta afgreitt báta á þriggja mánaða fresti. Akkan-Maritime í Tyrklandi ræður við þann smíðahraða. Þeir hafa mjög gott orðspor, hafa unnið fyrir aðila sem við þekkjum í Færeyjum, Noregi og Rússlandi og láta þeir allir vel af þeirra vinnu."

Margar fyrirspurnir

Þráinn segir að Skipasmíðastöð Njarðvíkur hafi orðið þess áskynja að útgerðir úr báðum kerfum hugi að endurnýjun báta og líti þá gjarnan til stálbáta því það vanti talsvert upp á að íslensk smíðaðir plastbátar séu nægilega sterkir fyrir þau verkefni sem þeim er ætluð. Sérstaklega eftir að bátarnir stækkuðu, vélaraflið jókst og sjósóknin fór í allt að 260 daga á ári.

Skipasmíðastöðinni hafa einnig borist fyrirspurnir frá útgerðum stærri báta, t.a.m. snurvoðarbáta og rækjubáta, um smíði á allt að 24 metra löngum bátum. Upp sé að koma endurnýjunarþörf í þeim flota sem telur fjölda skipa.

„Svo er líka mikil uppbygging og í raun gullgrafarastemning í kringum þjónustu við fiskeldi á Íslandi. Það streyma til landsins tvíbytnur og það er orðið þörf fyrir stærri tvíbytnur. Þær hafa komið frá Noregi og Færeyjum. Norðmenn láta smíðar sínar í Króatíu, Kína og Tyrklandi og flytja þær til Noregs eða beint hingað og Skipasmíðastöð Njarðvíkur hefur verið að klára ýmis smáverk í sumum þessara skipa til að þau fái íslenskt haffærisskírteini.“