laugardagur, 28. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Smíðar tvö skip fyrir Íslendinga

10. júlí 2019 kl. 14:33

Skipasmíðastöð Karstensens í Skagen í Danmörku. MYND/Smári Geirsson

Fyrir utan nýjan Börk og nýjan Vilhelm Þorsteinsson er skipasmíðastöð Karstensens í Danmörku með fjölmörg önnur skip í smíðum eða á teikniborðinu.

Skipasmíðastöð Karstensens er rótgróið fyrirtæki í Skagen í Danmörku.Tíðindamaður Síldarvinnslunnar hf. var þar staddur fyrir stuttu, ræddi við Knud Degn Karstensen forstjóra og greinir frá á vef fyrirtækisins.

Karstensen segir fyrirtækið meðal annars reka slipp í Nuuk á Grænlandi og starfsstöð í Póllandi þar sem nú er unnið að smíði fjögurra skipsskrokka.

„Þegar skrokkarnir eru fullgerðir eru þeir dregnir til Skagen þar sem skipin eru kláruð. Í Skagen er einnig fjölbreyttum viðhaldsverkefnum sinnt og þar rekur fyrirtækið slipp og flotkví.“

Hann segir hafa á ýmsu gengið í skipasmíðaiðnaðinum á undanförnum áratugum.

„Til dæmis upplifðu menn mikla lægð á níunda áratugnum og þá lognuðust margar stöðvar útaf. Á þeim tíma sinntum við verkefnum frá þriðja heiminum og lifðum af. Árið 1997 var síðan byrjað að smíða fiskiskip á ný og þessu erfiðleikaskeiði lauk.“

Hann segir að frá árinu 2007 hafi Skipasmíðastöð Karstensens afhent 43 nýsmíðuð skip, þar af 37 fiskiskip, 3 herskip og eitt rannsóknaskip.

„Flest fiskiskipanna hafa verið smíðuð fyrir dönsk, sænsk, skosk og írsk útgerðarfyrirtæki en einungis eitt slíkt skip hefur verið smíðað fyrir íslenskt fyrirtæki. Það er Þórunn Sveinsdóttir VE og reyndar er núna nýbúið að lengja Þórunni hér hjá okkur. Við hjá Skipasmíðastöð Karstensens höfum afhent 5-6 nýsmíðuð skip hvert ár á seinni tímum og sinnt viðhaldi og breytingum á 150-180 skipum. Það má því segja að umsvifin séu mikil.“

Nú séu tvö uppsjávarskip í smíðum þar fyrir íslensk útgerðarfyrirtæki. Þetta er Vilhelm Þorsteinsson sem smíðaður er fyrir Samherja og á að afhendast í júní á næsta ári og Börkur sem smíðaður er fyrir Síldarvinnsluna og á að afhendast í desember á næsta ári. Þegar er byrjað að smíða skrokk Vilhelms í starfsstöð fyrirtækisins í Póllandi og innan tíðar verður byrjað að skera niður efnið í skrokk Barkar. Þessi skip eru systurskip og verða hin glæsilegustu. Ég er afskaplega ánægður með að fá tækifæri til að þjóna Íslendingum og öll samskiptin við íslensku fyrirtækin hafa gengið eins og best verður á kosið,“ segir Knud.

Nánar má lesa um skipasmíðastöð Karstensens á vef Síldarvinnslunnar.