sunnudagur, 15. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sótthreinsa vinnsludekk á 10 mínútum

1. október 2018 kl. 06:00

Ragnar Ólafsson, tæknilegur framkvæmdastjóri D-Tech. MYND/GUGU

D-Tech kynnir byltingarkennda sótthreinsiaðferð

D-Tech ehf. var með viðveru á sjávarútvegssýningunni í Pétursborg. Þar kynnti Ragnar Ólafsson, tæknilegur framkvæmdastjóri fyrirtækisins, lausnir á sviði sótthreinsunar. D-Tech framleiðir og selur sjálfvirkan sótthreinsibúnað í matvælavinnslu. Fyrirtækið býður upp á lausnir fyrir skip, fiskvinnslur og fyrir kjúklinga- og kjötframleiðendur.

gugu@fiskifrettir.is

Kerfið samanstendur af móðurstöð, þeim fjölda clustera sem við á fyrir rýmin sem er mismunandi eftir stærðum og umfangi ásamt öðrum fylgihlutum.

Boðið er upp á þrjár stærðir af kerfum, þ.e. D-SAN 02, D-SAN 04, og D-SAN 08 og stendur hvert kerfi fyrir fjölda rása frá móðurstöð.

Clusterar eru tengdir hverri rás með slöngum frá móðurstöð og ræðst fjöldi þeirra eftir stærð rýma sem sótthreinsa á hverju sinni.

„Við notum einungis 5% af vatni og sótthreinsiefnum sem notað er með hefðbundnum aðferðum. Okkar aðferð stuðlar að miklum sparnaði í notkun sótthreinsiefna og vatns sem einnig er talsverður kostnaðarliður við sótthreinsun erlendis. Auk þess tekur sótthreinsunin með þessari aðferð mun skemmri tíma en með hefðbundnum aðferðum,“ segir Ragnar.

D-Tech setti upp D-SAN kerfi fyrir uppsjávarvinnslu HB Granda á Vopnafirði og einnig hjá SVN á Neskaupstað. Með okkar aðferð tekur um 40 mínúturað sótthreinsa í allri uppsjávarvinnslu HB Granda á Vopnafirði og SVN á Neskaupstað, vélbúnað ásamt öllu innanrými. D-Tech hefur einnig sett upp sótthreinsikerfi í þrjá af fjórum nýjum frystitogurum dótturfélaga Samherja. Að sögn Ragnars tekur það 10 mínútur að sótthreinsa allt vinnsludekkið í þeim.

Tæknin felst í þokunni og efnunum sem notuð eru. Kerfin eru smíðuð hjá Samey ehf. í Garðabæ en nú einnig er D-Tech farið að framleiða búnað í Póllandi.

Meiri loftgæði

„Þetta er íslenskt hugvit. Aðferðin var þekkt en efnin sem áður voru notuð voru ætandi og skemmdu tæki í húsunum ásamt því að vera hættuleg fólki. D-Tech hefur þróað umhverfisvæna efnasamsetningu sem er ekki ætandi og skaðlaus fyrir búnað og fólk. Við framleiðum efnið á Íslandi samkvæmt sérstakri formúlu. Dropastærðin sem mynduð er inni í rýmunum, er undir 10 míkró og svífur um allt rýmið. Samkvæmt okkar rannsóknum verða loftgæðin í húsinum líka mun betri sé þessari aðferð beitt. Við höfum séð árangur á þess sviði sem ekki hefur áður sést.“

Ragnar segir að aðferðafræðin sé að spyrjast út og hafi vakið mikla athygli. Fyrirtækið einbeiti sér núna að mörkuðum á Íslandi, Færeyjum, Danmörku, Noregi, Bretlandi og Póllandi. D-Tech hefur einmitt náð góðum árangri í Póllandi þar sem fyrirtækið er komið í samstarf við aðila sem eru stærstir í kjúklinga- og kjötframleiðslu. Ragnar segir að hjá þeim fyrirtækjum hafi orðið miklar gæðaframfarir í afurðunum með betri og árangursríkari sótthreinsiaðferð og hafi til að mynda örverutalningar í afurðum fallið gríðalega með tilkomu D-SAN tækninnar. Mikið gerlamagn í verksmiðjum og  á framleiðslulínum smiti auðveldlega úr í afurðirnar sem spilli gæðunum og geri líftíma þeirra styttri.

„Við erum hérna á sjávarútvegssýningunni í Pétursborg því við teljum að það séu mörg tækifæri hér. Hér er mikill uppgangur í fiskveiðum og tæknilegri endurnýjun. Hér er líka vitundarvakning hvað varðar meðhöndlun afurða og gæði. Ég held að menn séu að átta sig á því að það er betra að fullvinna fiskinn hér en að senda hann óunninn á aðra markaði til vinnslu. Þannig verður virðisaukinn meiri,“ segir Ragnar.

Afgreiðslutími á kerfum frá okkur er frá 8 til 12 vikur frá því að staðfest pöntun berst. Þrír starfa hjá D-Tech á Íslandi og aðrir þrír erlendis.