föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Spornað við ofveiði

18. janúar 2019 kl. 07:00

Bátar við bryggju í Noregi. MYND/AÐSEND

Norsk stjórnvöld þrengja að smábátaveiðum

Norskir smábátasjómenn í svonefndum opnum flokki hafa undanfarin ár stundað ofveiði á þorski, sem valdið hefur nokkrum ugg. Ofveiðin nú var komin upp í 10.500 tonn umfram veiðiheimildir.

Í opna flokknum hafa litlar takmarkanir verið á því hve margir bátar mega stunda veiðarnar, þótt veiðarnar séu kvótabundnar, en fjölda bátanna er nú reynt að takmarka með því að herða reglur um eignarhald.

Í nýjum reglum er sú krafa gerð að eigandi bátsins, þ.e. sá einstaklingur sem á meira en helming í bátnum, stundi sjálfur veiðarnar.

Harald T. Nesvik sjávarútvegsráðherra segir þetta nauðsynlegt til að draga úr ofveiði, en um leið sleppi þeir sem áfram stunda veiðarnar við harkalegan niðurskurð kvóta eins og annars hefði þurft.

„Ég hef fullan skilning á því að þetta getur komið mörgum í erfiða stöðu,“ sagði Nesvik, „en við neyðumst til að tryggja að þessi hópu aðlagi sig líka að sínum hluta heildarkvótans. Um leið förum við mýkri leið en fram kom á samráðsfundinum, sem fól í sér að kvótarnir yrðu skertir um nærri helming. Þetta gerum við einmitt af tilliti til þeirra sjómanna sem verða fyrir áhrifum af þessu.“

Ráðherrann vísar þarna til samráðsfundar, en slíkir eru haldnir tvisvar á ári í Noregi til að móta reglur um veiðar næsta tímabils. Norska Fiskistofan, Fiskeridirektoratet, stýrir þeim fundum og þangað mæta útgerðarmenn og hagsmunasamtök ýmis.

Umræður hafa lengi staðið yfir um að koma þurfi böndum á smábátaflotann, hagræða, en þau áform hafa verið umdeild og erfitt að ná samkomulagi.

gudsteinn@fiskifrettir.is