miðvikudagur, 14. apríl 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Staða ýsustofnsins

1. apríl 2021 kl. 09:00

Landburður hefur verið af ýsu og víða aflafréttir. Aðeins fjórðungur ýsukvótans er óveiddur þegar fimm mánuðir eru eftir af fiskveiðiárinu. Mynd/Alfons

Guðmundur Þórðarson, sviðsstjóri Botnsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, skrifar um ýsustofninn og stöðu hans ásamt álitamálum er varðar veiði úr honum.

Að undanförnu hafa borist fréttir af aukinni ýsugengd og er nú svo komið að margar útgerðir eru langt komnar með veiðiheimildir sínar. Staðan er því þröng hjá útgerðum sem sækja á grunnslóð og sérstaklega norðanlands. Því hefur umræða verið í gangi um hvort ekki sé rétt að auka aflaheimildir til að bregðast við ástandinu.

Sjálfbærni

Árið 2019 var aflaregla ýsu endurmetin af Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES). Helsta niðurstaðan var sú að það 40% veiðihlutfall sem áður var kveðið á um í aflareglu myndi ekki leiða til sjálfbærar nýtingar til lengri tíma litið heldur mætti veiðihlutfallið ekki vera hærra en 35%. Í kjölfar þeirrar niðurstöðu breyttu stjórnvöld aflareglu og hefur ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar verið byggð á 35% veiðihlutfalli frá fiskveiðiárinu 2019/2020. Helsta markmið aflareglunnar er að ná hámarksafrakstri til lengri tíma litið en það er gert með því að stilla sókn þannig að árgangar nái að vaxa upp og bæta við sig í þyngd. Jafnframt á aflareglan að draga úr sveiflum sem geta orðið vegna þess að oft koma tímabil hjá ýsustofninum þar sem nýliðun er léleg og því er reynt að láta árganga endast sem lengst í veiðinni. Ólíkt aflareglu þorsks er þó engin sveiflujöfnun í aflareglu ýsu.  Þannig getur ráðlagður afli aukist mjög hratt þegar stórir árgangar koma fram. Hafrannsóknastofnun getur því ekki tekið undir málflutning um að veiðihlutfall aflareglu verði aftur sett sem 40%.

Upplifun sjómanna um aukna ýsugengd kemur í flestu heim og saman við gögn Hafrannsóknastofnunar. Talsvert er um stóra ýsu á miðunum og nú eru stórir árgangar að fara að birtast í veiðinni, þ.e. 2019 árgangurinn og vísbendingar eru um að 2020 árgangurinn sé einnig stór. Það er því ljóst að mikið er um smáa ýsu en mikilvægt er að sókn í þessa árganga verði stillt í hóf til þess að þeir nái að vaxa upp.  Takist að stilla sókn í hóf munu þessir árgangar, ef svo fer fram sem horfir, geta gefið af sér mun meiri afla en ef hart er gengið fram í veiðum áður en þeir taka út vöxtinn.

Þrír fjórði á land

Um þessar mundir er búið að veiða um ¾ ráðlagðs heildarafla ýsu en í venjulegu árferði hefur hlutfallið verið um 2/3. Í fiskveiðistjórnunarkerfinu eru ýmsar leiðir fyrir útgerðir að bregðast við skorti á veiðiheimildum og er tegundatilfærslan líklega þekktasta leiðin til þess. Á síðasta fiskveiðiári fóru veiðar tæplega 10 þúsund tonnum fram úr ráðlögðum afla samkvæmt aflareglu. Það er því ljóst að sveigjanleiki er til staðar sem hægt er að nota, án þess að breyta aflareglu eða auka heimildir. Tímabundnar aðgerðir sem koma til móts við þá útgerðarflokka sem eru í mestum vandræðum vegna meðafla ýsu, eins og t.d. í þorskveiðum, er eitthvað sem Hafrannsóknastofnun telur mun áhrifaríkara heldur en að auka heildaraflaheimildir. Það að auka aflaheimildir nýtist ekki útgerðum sem hafa lítinn sem engan ýsukvóta og myndu slíkar aðgerðir auka sókn í árganga sem eru að koma í auknum mæli inn í veiðistofn ýsu.

Horfur til nánustu framtíðar eru bjartar þegar kemur að ýsunni og hugsanlegt er að í hönd gangi tímabil svipað ástandinu sem var í kringum 2005 þegar ýsustofninn var hvað stærstur. Til að svo megi verða er besta leiðin að reyna að halda afla innan þeirra marka sem aflaregla kveður á um til að tryggja megi hámarskafrakstur út úr stofninum sem einmitt er stefna stjórnvalda við nýtingu fiskistofna hér við land.

Höfundur er sviðsstjóri Botnsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar