sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Staðinn að meintum ólöglegum veiðum

8. september 2021 kl. 13:09

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar að störfum.

Landhelgisgæslan vill brýna fyrir skipstjórum að kynna sér vel lokuð svæði áður en haldið er til veiða.

Íslenskt togskip var staðið að meintum ólöglegum veiðum innan lokaðs svæðis austur af Glettingi um hádegisbil í gær. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. 

Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar urðu varir við að skipið væri að veiðum innan svæðis þar sem allar veiðar hafa verið bannaðar frá 1. júlí til áramóta. 

Austurfrétt hefur heimildir fyrir því að skipið sem um ræðir sé Vestmannaey VE, skip í eigu Bergs-Hugins, dótturfélags Síldarvinnslunnar.

Áhöfnin á TF-GNA, þyrlu Landhelgisgæslunnar, var kölluð út og send austur til að kanna málið. Sigmaður þyrlunnar fór um borð, skoðaði afladagbók og gerði skipstjóra togskipsins að halda til hafnar til frekari rannsóknar. Lögregla tók skýrslu af skipstjóranum við komuna til hafnar síðdegis í gær.

Uppfært klukkan 13:18

Síldarvinnslan hefur birt frétt á heimasíðu sinni sem er eftirfarandi: 

Landhelgisgæslan hafði í gær afskifti af Vestmannaey VE, skipi Bergs-Hugins ehf. dótturfélags Síldarvinnslunnar, vegna veiða á Glettinganesgrunni í svokölluðum Skáp. Við skoðun kom í ljós að tímabundið bann við veiðum með flotvörpu hafði verið sett á umrætt svæði með reglugerð í lok júní sl. en skipstjóra var ekki kunnugt um reglugerðina eða að svæðinu hefði verið lokað. Var skipinu því snúið til hafnar í Neskaupstað þar sem verður landað úr því. Virðist hafa farist fyrir hjá þar til bærum yfirvöldum að birta reglugerð um tímabundið bann á samráðsgátt eins og vænta mátti. Skýrslutöku vegna málsins er lokið og ráðgert er að Vestmannaey haldi á ný til veiða síðar í dag.