þriðjudagur, 18. maí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stærsti markaður fyrir uppsjávarfisk í heiminum

23. maí 2016 kl. 08:47

Makríll á ís.

Norska síldarsamlagið seldi fisk á uppboði fyrir 104 milljarða íslenskra króna á síðasta ári

Norska síldarsamlagið (Norges Sildesamlag) er stærsti rafræni uppboðsmarkaður í heimi fyrir uppsjávarfisk. Veltan á markaðnum er meiri en umsvifin hjá stærstu fiskihöfnum í Evrópu. Aðallega er boðinn upp fiskur af norskum skipum en erlend skip seldu fisk, einkum makríl, fyrir 1,35 milljarða norskra króna (20 milljarða ISK).

Þessar upplýsingar koma fram í yfirlitsgrein á vefnum kystmagasinet.no. Norska síldarsamlagið er í eigu norskra fiskimanna og útvegsmanna og þar er uppsjávarfiskur boðinn upp, svo sem síld, makríll, loðna og fleiri tegundir.

Norska síldarsamlagið er risi í samanburði við aðra fiskmarkaði eða fiskihafnir í Evrópu. Í Hanstholm í Danmörku er stærsti markaður í Evrópu fyrir hvítfisk. Heildarveltan þar er 670 milljónir danskra króna (12,6 milljarðar ISK). Í Skagen í Danmörku er stærsti danski markaðurinn fyrir uppsjávarfisk og þar er veltan 917 milljónir danskra króna (17,3 milljarðar ISK). Til samanburðar þá var veltan hjá Norska síldarsamlaginu 6,9 milljarðar norskra króna á síðasta ári (104 milljarðar ISK). Af þessu má glöggt sjá að norski markaðurinn ber höfuð og herðar yfir aðra markaði.

Reyndar er fiskur sem Norska síldarsamlagið býður upp af erlendum skipum og öðrum skipum ekki endilega unninn í Noregi. Hann gæti allt eins endað hjá vinnslustöðvum í Danmörku, Írlandi eða Hjaltlandi.

Á tíu ára tímabili, frá 2006 til 2015, seldi Norska síldarsamlagið 16,5 milljónir tonna af fiski að verðmæti alls 63 milljarðar norskra króna (946 milljarða ISK). Veltan er breytileg milli ára en metárið 2011 var seldur fiskur fyrir 8,5 milljarða (127,6 milljarða ISK). Árið í ár lofar góðu og talið er líklegt að velta Norska síldarsamlagsins fari yfir 7 milljarða.