þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Starfsemi hefst í byrjun næsta árs

Guðsteinn Bjarnason
12. apríl 2019 kl. 12:40

Nýja hátæknivinnslan að rísa á Dalvík. Hjalteyrin EA í höfn. MYND/Þorgeir Baldursson

Hús nýju hátæknivinnslunnar á Dalvík mjakast upp.

Á Dalvík gengur smíði nýrrar landvinnslu Samherja vel, þótt eitthvað hafi framkvæmdir tafist.

Þegar Fiskifréttir ræddu við Gest Geirsson, yfirmanns landvinnslu Samherja, í september árið 2017 var stefnt að því að hefja starfsemi þar í ársbyrjun 2019.

Gestur segir að nú sé stefnt að því að hefjast handa í byrjun næsta árs, eða ári síðar, í janúar 2020.

„Þetta er allt á plani núna,“ segir Gestur nú. Enn er stefnt að því að húsið verði búið nýjustu hátæknilausnum sem Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur sagt að muni marka þáttaskil í íslenskum sjávarútvegi.

„Við höfum ekkert slegið af því,“ segir Gestur. Enn er verið að reisa húsið sjálft og það ætti að verða tilbúið næsta haust, kannski í nóvember.

„Svo er verið að ganga frá lokasamningum á öllum búnaði, en eitthvað á samt eftir að klára ennþá,“ segir Gestur.

Frá upphafi var stefnt að því að í nýja húsinu verði hægt að vinna hundrað tonn á dag, sem þýðir að afköstin verða um 20 þúsund tonn á ári en húsið á að verða um sjö þúsund fermetrar að stærð.

Til þessa hefur afkastagetan á Dalvík verið um 15 þúsund tonn, en á Dalvík er um helmingur landvinnslu Samherja á bolfiski. Hinn helmingurinn hefur verið unninn á Akureyri.

Gamla húsið var barn síns tíma

Gamla húsið hefur engu að síður verið eitt fullkomnasta frystihús landsins. Miklar endurbætur voru gerðar á því árið 1997, en að stofni til var það hús sláturhús á Dalvík, meira en hálfrar aldar gamalt.

„Það hús er bara barn síns tíma. Við erum búnir að fullnýta það og rúmlega það,“ sagði Gestur haustið 2017.

„Framleiðslukerfið í gamla húsinu er tölvustýrt og skráningar tryggja rekjanleika vörunnar frá veiðum til viðskiptavinar,“ segir á vef Samherja. „Mikil áhersla er lögð á gæði og hreinlæti og er húsið samþykkt af helstu verslunarkeðjum í Evrópu.“

Aðaláherslan hefur verið á vinnslu þorsks og ýsu fyrir Evrópumarkað, en vinnslan er mjög sérhæfð þar sem allar afurðir eru lausfrystar.

Nýja húsið verður enn fullkomnara. Stefnt er að því að nýta allar hátæknilausnir sem nú eru til og mest komi það frá innlendum framleiðendum.

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki nýttu sér óspart hagstæð skilyrði á liðnum árum til aukinna fjárfestinga, ekki bara í skipakaup heldur einnig til að reisa nýjan vinnslubúnað.

Þannig tók G.Run í Grundarfirði á síðasta ári í notkun nýja landvinnslu sem er ein sú fullkomnasta á landinu. Fyrir vikið hlaut fyrirtækið nýsköpunarverðlaun Vesturlands í nóvember síðastliðnum.