laugardagur, 4. apríl 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stefnt á algjöra fríverslun við Breta

Guðsteinn Bjarnason
12. október 2017 kl. 09:10

Sigurgeir Þorgeirsson og Stefán Haukur Jóhannesson verða í eldlínunni þegar kemur að samningum við Breta. MYND/GB

Sjávarútvegurinn verður algjört forgangsmál í Brexit-tengdum viðræðum við Bretland

Brotthvarf Bretlands úr Evrópusambandinu gæti raskað verulega íslenskum viðskiptahagsmunum, ekki síst í sjávarútvegi sem á mikið undir viðskiptum og öðrum samskiptum við Bretland.

Íslenska stjórnsýslan er önnum kafin við að búa sig undir þessi væntanlegu umskipti og á vegum ráðuneytanna er unnið að því að kortleggja möguleikana og móta samningsmarkmið með íslenska hagsmuni að leiðarljósi. Fiskifréttir ræddu við Stefán Hauk Jóhannesson og Sigurgeir Þorgeirsson um undirbúninginn að samningaviðræðum um framtíðarsamskipti við Breta eftir útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu.

„Þetta er algjört forgangsmál hjá okkar utanríkisráðherra og ríkisstjórn, og ég held að þar verði engin breyting á þó hér verði ríkisstjórnarskipti. Þetta er svo stórt hagsmunamál,“ segir Stefán Haukur Jóhannesson, sem er formaður stýrihóps utanríkisráðuneytisins um þessi mál.

Stefán Haukur tekur við sendiherrastöðu í London um miðjan nóvember, þar sem hann mun standa í eldlínu samskiptanna við Breta. Hann var ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins þangað til í ágústlok en notar tímann þangað til hann fer til London í vinnuna með stýrihópnum. Þá tekur Andri Lúthersson við formennsku stýrihópsins.

„Bretar eru eitt helsta viðskiptaland okkar þannig að hagsmunir okkar þar eru gríðarmiklir, ekki síst í sjávarútvegsmálum,“ segir Stefán Haukur.

„Og við það að Bretar gangi úr ESB eru þeir líka að ganga úr EES, en í gegnum EES höfum við góðan aðgang að Bretlandsmörkuðum og auðvitað innri markaði Evrópusambandsins þannig að auðvitað þarf að vinna úr því og tryggja að ekki verði truflun á þessum mikilvægu viðskiptum sem við eigum við Breta.“

Undir stýrihópnum starfa sex vinnuhópar, skipaðir fulltrúum ráðuneyta og hagsmunaaðila, sem vinna að því að kortleggja hagsmuni Íslendinga á ólíkum sviðum og móta samningsmarkmið.

Sigurgeir Þorgeirsson í Atvinnuvegaráðuneytinu er í forystu fyrir vinnuhópi eitt, sem er að skoða framtíðaraðgang Íslendinga að breskum markaði, og leggja línurnar um hvaða viðskiptakjör við viljum fá fyrir sjávarafurðir, landbúnaðar- og iðnaðarvörur.

Algjör fríverslun
„Það er nú þannig að í gegnum EES samninginn og í einstökum tilvikum gagnvart gamla EFTA samningnum höfum við almennt mjög góð kjör inn á Evrópu,“ segir Sigurgeir. „Það eru nokkrar afurðir hins vegar þar sem eru ekki algjör tollfríðindi eða að því er mönnum finnst ekki fullnægjandi tollkvótar og við munum sækja á um það, og það er held ég ekkert leyndarmál og ég held að Bretum hafi þegar verið sagt það, að við viljum algjöra fríverslun með sjávarafurðir.“

Þetta verður helsta krafa okkar Íslendinga í viðræðunum við Breta, segir Sigurgeir, en „til vara að það verði ekki lakari kjör heldur en okkur bjóðast í dag.“

Annað grundvallarmál í væntanlegum viðræðum við Breta segir Sigurgerð snúast um að tryggja að engin snurða hlaupi á þráðinn varðandi flæði vöru yfir landamæri.

„Það þýðir að við verðum að sjá til þess það verði áfram gagnkvæm viðurkenning á heilbrigðisskoðun í báðum löndum.“

Hann segist þó telja afar ólíklegt að á þessu muni steyta.

„Því það er nú svo að ef Bretar gera sér einhverjar vonir um að ætla að hafa aðgang að innri markaði ESB, hvort sem þeir verða áfram á innri markaði eða gera einhverja samninga um það, þá verða þeir að uppfylla slíkar kröfur og standa áfram að því kerfi sem þeir eru aðilar í dag.“

Flækir málin
Þriðja atriðið, sem Íslendingar þurfa að fá niðurstöðu í hvað sjávarútveginn varðar, eru svo viðræður og samningar af einhverju tagi um deilistofna, sem flakka á milli lögsagna ríkja þannig að þau verða að koma sér saman um einhverjar takmarkanir á veiðum úr þeim.

„Það er svo sem erfitt að sjá nákvæmlega hvaða þýðingu brotthvarf Breta hefur nema það er ljóst að það mun frekar flækja dæmið heldur en hitt,“ segir Sigurgeir. „Það fjölgar náttúrlega um eitt strandríki, einn aðila að deilumálum okkar um makríl, kolmunna og norsk-íslenska síld. Og það er alla vega mín tilfinning að það muni ekki auðvelda lausnina.“

Ef þessi mál verða óleyst þegar Bretar ganga úr Evrópusambandinu gætu viðræðurnar orðið harla flóknar.

„Það væri þess vegna afskaplega mikilvægt fyrir okkur ef það væri hægt að ná að loka samningum áður en þeir fara út, en kannski ekki líklegt að það gerist.“

Stefán segir að þegar Bretar setjast að samningaborðinu sem strandríki muni þeir auðvitað hafa sína hagsmuni.

„Núna er það ESB eða framkvæmdastjórn ESB sem sér um þessa samninga fyrir þá. Að því leyti mun myndin verða flóknari, en við eigum eftir að sjá hvernig það muni þróast.“

Púsluspilið riðlast
Stefán segir að einnig verði mjög fróðlegt fyrir okkur Íslendinga að sjá hvernig Evrópusambandið mun móta og hugsanlega breyta hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu sinni eftir að Bretar fara út. Það varði hagsmuni Íslendinga og íslensks sjávarútvegs með bæði beinum og óbeinum hætti.

„Við það að þeir gangi út er nefnilega tekið stórt púsl út úr púsluspilinu, því sjávarútvegsstefna ESB var í raun og veru þróuð í aðdraganda inngöngu Breta inn í ESB. Hún verður beinlínis til í þeim tilgangi að taka Bretana inn, og Bretar deila náttúrlega flestum sínum stofnum með öðrum aðildarríkjum og reyndar Norðmönnum líka þannig að þeir verða að hafa einhvers konar stjórn á veiðunum og finna einhverjar leiðir til að semja um það. Því það er náttúrlega ekki hægt að fara í bara ólympískar veiðar á þessum stofnum við það að þeir gangi út,“ segir Stefán Haukur.

Hitt verður einnig mikilvægt hvernig Bretar muni þróa sína eigin sjávarútvegsstefnu

„Þar hafa þeir verið að horfa til okkar. Þeir hafa sent hingað sendinefndir frá hlutaðeigandi ráðuneyti í upplýsingaferð.“ Sigurgeir hefur setið fundi með þessum nefndum til að útskýra fyrir þeim íslensku nálgunina.

EFTA-þreifingar
Eitt af því sem nefnt hefur verið er að EFTA-ríkin geti staðið saman að einhverju leyti í viðræðum við Breta. Þreifingar í þá áttina af hálfu EFTA-ríkjanna eru þó vart farnar af stað, segir Stefán Haukur. Í byrjun síðustu viku hélt hann þó á fund með fulltrúum hinna EFTA-rikjanna, Noregs, Sviss og Liechtenstein.

„Þetta var fyrsti almennilegi fundurinn sem við áttum til að fara heildstætt yfir málin. Við vorum aðeins að bera saman bækur okkar um það hvernig við erum að nálgast málið, hvert fyrir sig, því öll erum við í viðræðum við Breta, hvert fyrir sig. Það eru þó ekki samningaviðræður, heldur erum við bara að skiptast á upplýsingum og skoðunum við Breta á þessu stigi. Við erum hvert og eitt að gera það á sínum forsendum.“

Á þessum fyrsta fundi EFTA-ríkjanna greindu Íslendingar frá því hvernig við höfum verið að nálgast þetta verkefni.

„Við erum að forgangsraða og kortleggja, og ég hef sagt við Breta að íslensk stjórnvöld séu opin fyrir því hvers konar fyrirkomulagi verður komið á varðandi framtíðarskipulag okkar viðskipta og samskipta. Við útilokum ekkert að svo stöddu. Við erum til í tvíhliða samning þess vegna. Við erum til í að gera samning með hinum EFTA-ríkjunum, og svo er ekkert hægt að útiloka að gerður verði samningur milli Breta og ESB sem hin EFTA-ríkin yrðu hluti af, alla vega þau EFTA-ríki sem eru líka í EES,“ segir Stefán.

Hagsmunir íslenskra
„En eins og við höfum sagt við Breta þá er okkar hlutverk, okkar ábyrgð og markmið að gæta hagsmuna íslenskra ríkisborgara og fyrirtækja. Þar er aðaláherslan hjá okkur.“

Hann segir að þetta verði vissulega afar flókið viðfangsefni og Íslendingar þurfi að hafa sig alla við.

„En þetta er samt enn meira mál fyrir Breta en okkur. Og við verðum alveg tilbúnir þegar þeir eru tilbúnir, og við erum búnir að segja það við þá. Við erum búnir að bjóða fram aðstoð, búnir að bjóða ef þeir vilja frekari skoðanaskipti og viðræður við okkur, til dæmis um sjávarútvegsmálin, ef við getum aðstoðað með tækniþekkingu erum við alveg boðin og búin til þess.“

„Eitt af því sem mikil áhersla verður lögð á í þessum samningum er auðvitað að tryggja möguleika Íslendinga til að reka fyrirtæki þarna,“ segir Sigurgeir. „Og frjálsa för fólks því það er liður í rekstri þessara fyrirtækja að þau geti ráðið fólk bæði þar og héðan. Reyndar held ég að útflutningur okkar á fiski sérstaklega þarna á Humberside svæðið er mjög mikilvægur fyrir það svæði, og þeir gera sér allir grein fyrir því, þannig að ég sé í sjálfu sér ekkert sem ætti að vinna gegn því að Bretar vilji ná við okkur hagstæðum samningi.“

Mögulega ný tækifæri
Stefán segir að angi af því máli sé svokallaður staðfesturéttur, sem er partur af fjórfrelsinu margfræga og varðar rétt fólks til að setja upp fyrirtæki í öðrum ESB-löndum, og þar með í öðrum EES-löndum. Hann segir Breta í raun enga hagsmuni hafa af því að setja þar einhverjar skorður.

„Bretar hafa reyndar lýst því yfir að það sé markmið þeirra að ganga fram fyrir skjöldu í því að þróa áfram frjáls viðskipti alþjóðlega, hnattrænt,“ segir Stefán. „Í þessu geta fólgist kannski ákveðin tækifæri fyrir okkur þannig að við þurfum auðvitað að fylgjast grannt með og sjá hvort við gætum notið góðs af og fylgt í kjölfarið eða verið hluti af jafnvel. En allt er þetta mjög óljóst ennþá og á byrjunarstigi.“

Sigurgeir nefnir einnig að eitt af okkar helstu hagsmunamálum í þessum viðræðum, sem framundan eru, muni tengjast útflutningi Íslendinga á fiski til Frakklands sem nú fer í gegnum Bretland.

„Ef það verða einhverjir hnökrar á milli Bretlands og meginlandsins í viðskiptum gætu íslensk fyrirtæki orðið að breyta sínum leiðum og fara frekar á Rotterdam til dæmis. En allt munum við leysa þetta ef á þarf að halda,“ segir Sigurgeir.