miðvikudagur, 20. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stöðugt meira mjöl og lýsi fer í fiskafóður

8. apríl 2011 kl. 12:00

Mjölútskipun Fáskrúðsfirði (Mynd: Óðinn Magnason).

Kína stærsti kaupandi mjöls en Evrópulönd kaupa mesta af lýsinu.

Samfara sífellt auknu fiskeldi í veröldinni fer vaxandi hluti fiskimjöls og fisklýsis til fiskafóðurs. Á árinu 2009 var 63% fiskimjölframleiðslunnar í heiminum ráðstafað til fiskeldis og 81% af fisklýsinu. Þá hefur eftirspurn eftir lýsi til manneldis farið vaxandi.

Framboð af mjöli og lýsi hefur verið tiltölulega stöðugt undanfarin ár ef undan eru skildar tímabundnar niðursveiflu í afla bræðslufisks þegar áhrifa veðurfyrirbærisins El Nino gætir í Kyrrahafi.

Chile og Perú framleiða mest af þessum afurðum. Kína er stærsti kaupandinn af mjöli og Evrópulönd kaupa mest af lýsinu, en þar munar mest um laxeldið í Noregi.

Alls eru tæpar 22 milljónir tonna af fiski brædd í mjöl og lýsi í heiminum og úr því magni eru framleidd nálægt 5 milljónir tonna af mjöli og ein milljón tonna af lýsi. Þess má geta að Kínverjar nota 1,5 milljónir tonna af fiskimjöli á ári, þar af framleiða þeir sjálfir ekki nema 140.000 tonn. Hitt flytja þeir inn.

Þessar upplýsingar komu fram í erindi framkvæmdastjóra Alþjóðasambands fiskmjölsframleiðenda (IFFO) á ársfundi Samtaka fiskvinnslu- og eldisstöðva í Noregi nýlega.