mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stopp sett á siglingar norskra loðnuskipa til Íslands

1. febrúar 2013 kl. 11:36

Norskt loðnuskip

Gert ráð fyrir að skip sem komin eru á miðin klári að veiða eftirstöðvar norska kvótans

 

Eftir daginn í dag verður sett stopp á siglingar norskra loðnuskipa á Íslandsmið, að því er fram kemur á vef norska Síldarsamlagsins.

Nú þegar hafa norsku skipin veitt 29.500 tonn af loðnu í íslensku lögsögunni en þeim er heimilt að veiða hér 34.511 tonn. Gert er ráð fyrir því að þau skip sem eru á miðunum hér við land eða eru á leiðinni nái að klára það sem eftir er af kvótanum á næstu dögum.

Heildarkvóti Norðmanna í íslensku loðnunni er um 50 þúsund tonn. Kvótinn var ekki gefinn út fyrr en síðasliðið haust og gafst Norðmönnum þvi ekki kostur á að veiða loðnu í sumar í grænlensku lögsögunni eða við Jan Mayen. Um 15 þúsund tonn af norska kvótanum detta því dauð niður hjá norsku skipunum þar sem þau náðu ekki að veiða loðnu utan íslensku lögsögunnar.