föstudagur, 7. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stórfellt og kerfisbundið brottkast

22. nóvember 2017 kl. 09:41

Fréttaskýringarþátturinn Kveikur sýndi í gærkvöldi dæmi stórfellt brottkast á Íslandsmiðum. Fiskistofa er vanmáttug gagnvart slíku framferði um borð í skipum og gangvart réttri vigtun afla.

Í fréttaskýringarþættinum Kveik var í gærkvöldi fjallað um stórfellt og að því virðist kerfisbundið brottkast um borð í frystitogaranum Kleifabergi. Sýnd voru í þættinum myndskeið sem Kveikur hefur undir höndum frá einum af fyrrverandi áhafnarmeðlimum skipsins og eru tekin á þriggja ára tímabili, frá 2008 til 2011.

Myndirnar sýna hvernig „þorski undir ákveðinni stærð og meðafla á karfaveiðum er hent rétt eins og mörgum tonnum af makríl. Núverandi og fyrrverandi skipverjar af Kleifaberginu, gengust við því í samtali við Kveik að hafa tekið þátt í brottkasti þar og um borð í öðrum skipum. Enginn þeirra vildi þó koma fram undir nafni,“ segir í texta umfjöllunarinnar utan eiganda myndefnisins en svarar því til að hann hafi ekki sýnt sannanir fyrir brottkastinu fyrr af ótta við að missa vinnu sína. Hann hafi stigið fram eftir að hafa verið sagt upp nýlega.

Í umfjöllun Kveiks stíga jafnframt fram fyrrverandi starfsmenn eftirlitsstofnunarinnar Fiskistofu. Þeir vilja ekki ganga svo langt að fullyrða að brottkast sé viðtekin venja um borð í íslenskum fiskiskipum en telja þó að ætli menn sér að misnota kerfið þá hafi þeir til þess frjálsar hendur.  Hins vegar hafi það verið svo um langa hríð að mjög erfitt sé fyrir stofnunina að vinna að eftirliti vegna reglugerðanna sem stofnunin þarf að framfylgja.

Fiskistofustjóri, Eyþór Björnsson, sagði í viðtali í þættinum að augljóst væri að þeir sem þetta stunduðu ættu ekki að hafa leyfi til þess að nýta auðlindina, en honum virtist brugðið eftir að hafa séð myndefnið sem sýnir brottkastið. „Þetta er bara subbuskapur af verstu gerð. Og auðvitað mjög alvarlegt,“ sagði Eyþór í viðtalinu við Kveik.

Hann viðurkennir jafnframt, aðspurður, að stofnunin, Fiskistofa, geti ekki uppfyllt lögbundnar skyldur sínar. Fjárskortur og óljóst regluverk standi því fyrir þrifum að stofnunin beiti sér þar sem augljóslega er haft rangt við.

Það á ekki síst við um eina af grunnstoðum íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins sem er rétt vigtun afla. Upp hafa komið mál á undanförnum árum þar sem sýnt hefur verið fram á stórfelld misferli, en málin hafa koðnað niður þrátt fyrir gögn mála bendi til stórfelldra brota – til stórfells þjófnaðar úr sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.