laugardagur, 6. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stóru fyrirtækin þjóðhagslega mikilvæg

8. mars 2020 kl. 09:00

Mynd/Síldarvinnslan

Lagt hefur verið fram frumvarp í samráðsgátt stjórnvalda sem breytir fyrri skilgreiningu á hvaða fyrirtæki teljast þjóðhagslega mikilvæg og varði því hagsmuni almennings beint.

Lagt hefur verið fram frumvarp í samráðsgátt stjórnvalda sem breytir fyrri skilgreiningu á hvaða fyrirtæki teljast þjóðhagslega mikilvæg og varði því hagsmuni almennings beint. Með breytingu laganna fjölgar þeim fyrirtækjum sem falla undir þessa skilgreiningu um þrjátíu alls en helmingur þeirra eru stór sjávarútvegsfyrirtæki ef af verður.

Frumvarpið sem um ræðir felur í sér nokkrar breytingar á lögum um ársreikninga og lögum um endurskoðendur og endurskoðun. Fyrir eru, samkvæmt gildandi lögum, eru þjóðfélagslega mikilvæg félög þau sem eru skráð á verðbréfamarkað en einnig lánastofnanir, vátryggingafélög og lífeyrissjóðir. Verði stjórnarfrumvarpið að lögum bætast við sjávarútvegsfyrirtæki, eins og áður sagði, en eins önnur á sviði stóriðju, orkumála, fjarskipta, flugsamgangna og millilandaflutninga. Er þá haft til hliðsjónar eðli og þjóðfélagslegt mikilvægi fyrirtækjanna og horft til þess hvort starfsemi þeirra varði hagsmuni almennings með vísan til eðli reksturs, stærðar eða fjölda starfsmanna.

„Ástæða þess er meðal annars sú að röskun á starfsemi, þjónustu eða rekstri slíkra félaga getur haft umtalsverð áhrif á efnahagsstarfsemi eða stöðugleika vegna þess hversu umfangsmikil hún er, markaðshlutdeildar hennar, mikilvægi á atvinnumarkaði, tengsla við aðra starfsemi, flækjustigs eða starfsemi yfir landamæri eða vegna þess að önnur sambærileg starfsemi eða rekstur hér á landi er takmörkuð eða ekki í boði,“ segir í greinargerð.

Svo auka megi traust

Lagt er til að lögin taki til lögaðila sem eiga fiskiskip með aflahlutdeild samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, lögum um veiðar utan fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um fiskeldi.

Þetta er rökstutt með eftirfarandi hætti í greinargerð og skýringum við einstakar greinar frumvarpsins.

„Ástæðan er fyrst og fremst sú að starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja byggist í flestum tilvikum á nýtingu auðlinda sem eru í sameign íslensku þjóðarinnar. Þá hafa gjöful fiskimið umhverfis landið og vinnsla sjávarfangs einnig gegnt lykilhlutverki í íslensku atvinnulífi, ekki síst á landsbyggðinni, auk þess sem sjávarafurðir eru ein mikilvægasta útflutningsvara Íslendinga. Vonir standa til þess að tillagan muni auka traust á íslenskum sjávarútvegi og auka gagnsæi í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Tillagan er einnig í samræmi við meginstefnu íslenskra stjórnvalda í sjávarútvegi, sem felst m.a. í því að stuðla að sjálfbærri og ábyrgri nýtingu lifandi náttúruauðlinda í hafi sem er forsenda græns vaxtar og þar með öflugs atvinnulífs. Rétt þykir að gera slíkar kröfur til íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hvort sem þau nýta nytjastofna á Íslandsmiðum eða úr sérstökum deilistofnum utan fiskveiðilandhelgi Íslands.“

Tilefni lagasetningar

Frumvarpið er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem miða að því að auka traust á íslensku atvinnulífi, m.a. með því að gera ríkari kröfur um gagnsæi í rekstri stærri óskráðra fyrirtækja.

„Í tengslum við þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa ráðuneyti unnið greiningu á því hvers konar atvinnugreinar og fyrirtæki hér á landi geta talist þjóðhagslega mikilvæg og var sú vinna lögð til grundvallar við gerð frumvarpsins.“