mánudagur, 9. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Súrnun hafsins örust hér

Guðsteinn Bjarnason
13. maí 2018 kl. 07:00

Hafið súrnar hraðar hér við land en annars staðar. MYND/HAG

Afdráttarlaus skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi

Heimshöfin hafa tekið við 30 prósentum af koldíoxíðlosuninni, sem hefur aukist um 40 prósent frá því fyrir iðnbyltingu. Það veldur súrnun þeirra.

„Súrnun hafsins er staðreynd, staðfest með beinum mælingum og fræðilegum reikningum,“ segir í nýrri skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi. Súrninin „hefur nú þegar haft neikvæð áhrif á lífríki hafsins og skelfiskræktun“ og hún er miklu örari hér nyrst í Atlantshafi en að jafnaði í heimshöfunum.

„Því er líklegt að sjórinn hér við land hafi súrnað meira eftir iðnvæðingu heldur en heimshöfin að jafnaði,“ segir í skýrslunni og þar með er einnig líklegt að „neikvæð áhrif súrnunar á lífríki og vistkerfi sjávar komi fyrr fram á íslenskum hafsvæðum en að jafnaði í heimshöfunum.“

Hefur þegar haft neikvæð áhrif
Súrnun sjávar er sögð hafa nú þegar haft neikvæð áhrif á lífríki hafsins og skelfiskræktun. „Til að komast hjá stórfelldum breytingum á lífríki og vistkerfum í höfunum þarf að minnka losun CO2 stórlega. Framtíð hafsins ræðst af því hvernig losun manna á koltvíoxíði verður háttað og til hvaða aðgerða verður gripið fyrr en síðar.“

Tekið er fram að breytingar séu örastar í yfirborði sjávar og líklegt „að náttúruleg árstíðasveifla á sýrustigi í yfirborði sjávar sé komin út fyrir það svið sem lífríkið hafði aðlagast fyrir iðnvæðingu. Súrnunin er hægari í dýpri sjávarlögum en nær til botns á 1800 m dýpi þar sem súrnun er vöktuð í Íslandshafi.“

Kalkmyndandi lífríki er talið einkar viðkvæmt fyrir áhrifum súrnunar. Vegna eiginleika sjávar og lágs sjávarhita er kalkmettunarstig í hafinu við Ísland og í Norðurhöfum almennt náttúrulega lágt. Við þessar aðstæður leiðir súrnun fyrr til undirmettunar kalks heldur en að jafnaði í heimshöfunum.

Íslensk hafsvæði viðkvæmari
Þá segja höfundar skýrslunnar líklegt „að neikvæð áhrif súrnunar á lífríki og vistkerfi sjávar komi fyrr fram á íslenskum hafsvæðum en að jafnaði í heimshöfunum.“

Áhrifin geta bæði komið fram án þess að eftir því sé tekið, og þá hjá tegundum sem ekki eru nýttar, og birst óvænt eins og gerðist í ostruræktun við Kyrrahafsstrendur N-Ameríku.

Skýrslan er sú þriðja sem vísindanefnd tekur saman um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi. Tvær fyrri skýrslur komu út árin 2000 og 2008. Það er umhverfisráðuneytið sem hefur látið gera þessar skýrslur og var þriðja vísindanefndin skipuð haustið 2015. Nefndina skipuðu sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands, Hafrannsóknastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Óumdeilanlegt
Höfundar skýrslunnar eru afdráttarlausir varðandi hlýnun jarðar, áhrif hennar og orsakir:

„Hlýnun jarðar er óumdeilanleg og benda margar athuganir til breytinga frá því um miðbik síðustu aldar sem eru fordæmalausar hvort sem litið er til áratuga eða árþúsunda,“ segir í inngangi. „Lofthjúpurinn og heimshöfin hafa hlýnað, dregið hefur úr magni og útbreiðslu snævar og íss, auk þess sem sjávarborð hefur hækkað og styrkur gróðurhúsalofttegunda aukist. Ennfremur hefur sýrustig sjávar lækkað um 0.1 pH stig frá iðnbyltingu og ummerki þess á lífríki eru þegar merkjanleg.“

Hér á Íslandi hefur hlýnað verulega frá því samfelldar mælingar hófust fyrir miðja 19. öld, eða sem nemur 0,8 gráður á öld, og sú hlýnun er að sögn skýrsluhöfunda sambærileg við hnattræna hlýnun á sama tíma.

Búast má við því að árin 2046-2055 verði að meðaltali 1,2 til 2,3 gráðum hlýrri hér á landi og í hafinu umhverfis en árin 1986 til 2005 voru. Til næstu aldamóta má síðan búast við að hlýnunin nemi allt að 4 gráðum en takist mönnum að halda sig við Parísarsamkomulagið verði hlýnunin aðeins 1,5 gráður.

Höfin taka við þriðjungi losunar
„Styrkur gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum er nú mun meiri en vitað er að hann hafi verið síðustu 800 þúsund ár hið minnsta,“ segir í skýrslunni, og þar er einnig fullyrt að athafnir manna, sérstaklega bruni jarðefnaeldsneytis, eigi þar hlut að máli. „Styrkur CO2 í lofthjúpnum hefur aukist um 40% frá því fyrir iðnbyltingu. Heimshöfin hafa tekið við um 30% af koldíoxíðslosuninni og veldur það súrnun þeirra.“

Þá segir að frá miðbiki 8. áratugs síðustu aldar hafi hlýnun að öllum líkindum numið um 0.17–0.19°C á áratug. Sveiflur yfir styttri tímabil víkja ekki marktækt frá því.

Hvað Ísland varðar þá hefur hlýnað verulega hér frá því að samfelldar mælingar hófust fyrir miðbik 19. aldar. Hlýnunin hér nemur um 0.8°C á öld og er það sambærilegt við hnattræna hlýnun á sama tímabíli.

Ennfremur segir að fram að miðbiki aldarinnar sé líklegt að hér á landi og hafsvæðinu í kring muni halda áfram að hlýna. Ef fram heldur sem horfir verður meðalhiti hér á bilinu 1,2 til 2,3 gráðum hærri árin 2046–2055 en hann var árin 1986–2005.

Hversu mikið hitinn hækkar ræðst þó aðallega ef losun gróðurhúsalofttegunda, þannig að ef hún verður mikil gæti hlýnun til loka aldarinnar numið meira en 4°C. Takist hins vegar að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins færi hlýnunin til aldamóta ekki yfir 1,5°C.