sunnudagur, 21. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sverrir Gunnlaugsson, sjómaður ársins í Vestmannaeyjum

24. maí 2018 kl. 15:54

Sá fjörkippi Surtseyjargoss á fyrstu vertíðinniSverrir Gunnlaugsson, skipstjóri á Sinda VE, var á leið í land þegar náðist í hann en farið er að styttast í annan endann á löngum sjómennskuferli þessa fengsæla skipstjóra. Hann hefur verið án hlés til sjós í rúma hálfa öld og sá Surtseyjargosið byrja að fjara út þegar hann kom til Eyja um áramótin 1966.

gugu@fiskifrettir.is

Sverrir er Siglfirðingur en kom á vertíð til Eyja 1966 sem hann segir að standi enn yfir. Hann hefur verið með fjölda skipa, þar á meðal á Vestmannaey, Bergey, Erling KE, Jón Vídalín, Gullberg, Sindra, Berg, Ófeig, Dala Rafn, Huginn og Hamraberg. Sverrir ætlaði að hætta til sjós þegar Gullbergið var selt en það fór á annan veg. Hann verður sjötugur í desember og hefur nú ákveðið að hætta á sjónum.

Túrinn var stuttur að þessu sinni eða einn sólarhringur vestur af Eldeyjarbanka. Ástæðan var að fragtskip var í Vestmannaeyjahöfn  á leið til Þýskalands með karfa og átti að nýta sér það. Sverrir segir að eftirtekjan hefði þó mátt vera betri en í lestinni voru á þriðja hundruð kör. Helmingur aflans var karfi en annað mest þorskur.

Ufsinn varla finnst

„Við megum aðeins kíkja á þorskinn til þess að lífga upp á tilveruna og til þess að við gleymum því ekki hvernig hann lítur út. En við erum frekar settir á karfa eða ufsa en sá síðarnefndi er næstum verðlaus en þó mikilvægur fyrir útgerðina upp á kvótann að gera. Vandinn er hins vegar sá  að ufsinn varla finnst og það litla sem við rekumst á er svo smávaxið að það er ekki komandi nálægt því. Í raun eru þessi svæði lokunarhæf þar sem hann þó finnst,“ segir Sverrir.

Hlandvolgur úr bruggtækinu

Síðastliðin tvö ár hefur brugghúsið The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum valið einn sjómann úr Eyjaflotanum og tilnefnt hann sjómann ársins. Fyrsta árið var Ragnar Þór Jóhannsson, Raggi Togari, fyrir valinu, og 2017 var það Ríkharður Zoëga. Sjómaður ársins 2018 er Sverrir Gunnlaugsson og sjómannabjórinn 2018 heitir Sverrir eftir honum og er dökkt öl með 8% áfengisstyrkleika. Sverrir fer í sölu á valda veitingastaði og bari. Auk þess er flaska af sjómannabjór ársins boðin upp á sjómannnaballi Sjómannadagsráðs og hefur ágóði uppboðsins til þessa runnið til Krabbavarna í Vestmannaeyjum. Samtals öfluðu bjórarnir Togarinn og Zoëga um einni milljón króna sem rann óskipt til Krabbavarna.

„Þetta eru sómamenn sem ég fylgi eftir. Ég hef smakkað bjórinn en hann var hlandvolgur úr bruggtækinu. En þetta lofar góðu. Ég hafði nefnt að ágóðinn af uppboðinu renni til Björgunarfélags Vestmannaeyja.“