sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tækifæri NauticRus í Rússlandi óþrjótandi

Guðjón Guðmundsson
1. desember 2018 kl. 06:00

Tölvugerð mynd af Baltic Raptor, 24 metra löngum og 9 metra breiðum togara NauticRus.

Kynntu stjórnvöldum minni gerð togara

Skipahönnunarfyrirtækið NauticRus, sem Alfreð Tulinius skipahönnuður stofnaði fyrir sex mánuðum, kynnti á dögunum fyrir sjávarútvegsráðuneytinu í Rússlandi, nýja gerð 24 metra langs togara sem valkost inn í fyrirhugaða endurnýjun þessa stærðarflokks í Rússlandi. Nýsmíðar innan þessa flokks verða niðurgreiddar af ríkinu um 25% og markmið stjórnvalda er að endurnýja flotann hratt sem telur hundruði skipa.

Skipið, sem kallast Baltic Raptor, er óvenjulegt að lögun og gerð og að sögn Alfreðs, voru viðtökur ráðuneytisins á kynningunni afar jákvæðar.

„Ég held að það sé töluverður markaður fyrir svona skip, bæði hérna við Eystrasaltið, í Svartahafinu og Azovhafinu. Þetta er togari, 24 metra langur og níu metra breiður. Bárðarbungulagið á stefninu er ekki ómengað og tilgangurinn er sá að fullnýta rými skipsins sem er ekki það stórt í sniðum,“ segir Alfreð.

Fjöldaframleiðsla

Hann segir að önnur nálgun verði gagnvart þessu verkefni en til dæmis gagnvart stóru togarana sem verið er að smíða fyrir Norebo samkvæmt hönnun Nautic. Báturinn er lítill og ljóst að verð á honum muni skipta miklu máli í markaðssetningu og sölu. Af þeim sökum sé nánast nauðsynlegt að fjöldaframleiða bátinn og það yrði gert í Rússlandi.

„Þetta er stálbátur og gæti nýst til ýmissa veiða. Hann fellur inn í það sem hérna í Rússlandi kallast moskítóflotinn. Innan hans eru nokkrir flokkar og við erum að reyna að komast inn í þennan flokk núna,“ segir Alfreð.

Báturinn er hannaður fyrir tvö spil og getur jafnt verið á uppsjávarveiðum og botnveiðum. Hann er með 50 fermetra lokuðu vinnsludekki og getur borið 70 tonn af fiski í 660 lítra körum. Einnig er gert ráð fyrir að hægt verði að koma fyrir í honum RSW kælitanki fyrir uppsjávarveiðarnar. Þá er fyrirhugað að vera með tvær fastar azimut skrúfur sem eru beindrifnar af PM rafmótor, sem situr ofan á skaftinu. Þannig er hægt að stytta vélarými verulega og auka þannig lestarrými.

Vilja hraða endurnýjun

Rússnesk stjórnvöld hafa beitt sér mjög fyrir endurnýjun fiskiskipaflotans í landinu og landvinnslunnar með svokölluðum fjárfestingakvóta sem felur í sér að útgerðir og vinnslur sem fara út í endurnýjun fá úthlutað viðbótarkvóta. Annað verður upp á tengingnum varðandi bátaflotann. Þar stefnir í að stjórnvöld niðurgreiði 25% af kostnaði við nýsmíði báta og jafnvel beiti þá refsingum af skattalegu tagi sem þráast við að endurnýja. Einnig stefnir í að héraðsstjórnir greiði niður hluta af kostnaði við nýsmíðarnar. Markmið hins opinbera er að skipakosturinn verði með þeim hætti að hægt verði að sækja sjó í verri veðrum með auknu öryggi fyrir áhafnir og nútímavæða um leið meðhöndlun á afla. Líklega verður þessari aðferðafræði beitt gagnvart þremur stærðarflokkum minni fiskiskipa og byrjað verður á 24 metra löngum skipum, þá 30 metra og loks 40 metra löngum.

Alfreð segir að unnið sé að hugmyndavinnu að skipum í öllum þessum flokkum hjá NauticRus.

„NauticRus á að verða öflugasta hönnunarstofa á skipum beggja vegna Úralfjalla. Stofan var stofnuð opinberlega fyrir sex mánuðum og þar starfa nú 40 manns. Við ætlum að verða innsti koppur í búri þegar kemur að endurnýjum á smærri fiskiskipum. Þetta er floti upp á mörg hundruð báta. Þess vegna er svo mikilvægt að fara út í fjöldaframleiðslu eins og tíðkaðist til dæmis við framleiðslu á Ford T-Model á sínum tíma til þess að ná niður verðinu á Baltic Raptor.“

Nautic og NauticRus er hluti Knarr-samsteypunnar sem náði risasamningnum við Norebo útgerðina. Málið er hins vegar á því stigi að ekki er farið að huga að því að bjóða fram heildarpakka í þessi minni skip enn sem komið er.