sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Talsmenn skoskra makrílveiðimanna: Sæta sjálfir ákæru fyrir ólöglegar veiðar

30. ágúst 2010 kl. 15:10

Sex útgerðir á Hjaltlandseyjum eiga það yfir höfði sér að þurfa að greiða himinháar sektir og sæta auk þess eignaupptöku að verðmæti margra milljóna punda vegna ólöglegrar löndunar á síld og makríl að verðmæti 15 milljónir GBP, eða sem nemur 2,8 milljörðum ISK.

Þetta er eitt stærsta mál í Skolandi um löndun framhjá vigt þar sem skipstjórar veiða af ásettu ráði umfram heimildir og landa ólöglegum afla. Með því athæfi skeyta þeir engu um lög um verndun fiskstofna.

Útgerðarmönnum skipanna er gefið að sök að falsa upplýsingar um aflatölur í yfir 200 veiðiferðum á árunum 2002-2005. Þeir hafa viðurkennt að hafa brotið lög. Einn sakborninga er varaformaður samtaka uppsjávarveiðimanna í Skotlandi og annar er framkvæmdastjóri þessara samtaka. Fjölmiðlar í Bretlandi benda á þann tvískinnung að þetta eru einmitt sömu samtökin og eru í fararbroddi þeirra sem ásaka Íslendinga og Færeyinga sem mest um ólöglegar makrílveiðar.

Dómur fellur í málinu í nóvember. Auk þess eru yfirvöld í Bretlandi að undirbúa kröfur um stórfellda eignaupptöku hjá þessum aðilum vegna löndunar á ólöglegum afla. Heimild: www.fis.com