þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Telur vottanir deilistofna í húfi

Guðsteinn Bjarnason
20. janúar 2019 kl. 07:00

Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélagsins. MYND/AÐSEND

Framkvæmdastjóri Ísfélagsins kom víða við í erindi hjá Þekkingarsetri Vestmannaeyja sem hann flutti seint á nýliðnu ári.

„Það er ekkert gefið að þetta sé frábær bransi,“ sagði Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, í fyrirlestri sem hann flutti hjá Þekkingarsetri Vestmannaeyja í nóvember.

Hann fjallaði þar um sögu Ísfélagsins og helstu þætti starfseminnar. Meðal annars greindi hann frá afkomu félagsins undanfarin ár, þar sem fram kemur að árin 2010 til 2013 hafi verið óvenju góð.

„Ég sagði hérna á hverju ári við mitt fólk að þetta sé ár sem þið munið segja barnabörnunum frá. Þetta kemur aldrei aftur,“ sagði hann. „Ég trúi því satt að segja sjálfur að svona ár komi aldrei aftur. Þetta er alveg einstakt í Íslandssögunni og þetta ruglar til dæmis alla umræðu um veiðigjöld og afkomu greinarinnar.“

Ísfélag Vestmannaeyja er elsta starfandi hlutafélag landsins, stofnað í Vestmannaeyjum árið 1901 og nú með um 250 starfsmenn bæði í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn, þar af 85 starfsmenn á sjó en 165 í landi.

Í Eyjum er fyrirtækið með fiskimjölsverksmiðju sem afkastar 1.200 tonnum á sólarhring og frystihús sem afkastar 400 tonnum. Á Þórshöfn er einnig bæði fiskimjölsverksmiðja sem afkastar 1.000 tonnum og frystihús sem afkastar 300 tonnum á sólarhring.

Mikilvægi á Þórshöfn
Það fer ekkert framhjá ráðamönnum fyrirtækisins að starfsemin á Þórshöfn skiptir miklu máli fyrir íbúana þar.

„Starfsmannafjöldi er svipaður þar og í Eyjum en munurinn er náttúrlega sá að Þórshöfn er tíu sinnum minna samfélag en í Vestmannaeyjum,“ sagði Stefán. „Það fer ekkert á milli mála þegar maður kemur þarna hvaða þýðingu Ísfélagið hefur fyrir samfélagið og samfélagið auðvitað fyrir Ísfélagið. “ Hann tók fram að samskiptin við íbúa Þórshafnar hafi alltaf verið ánægjuleg og reksturinn þar gengið afskaplega vel.

Hann sagði fjárhagsstöðu fyrirtækisins hafa batnað á síðustu árum, skuldir hafi haldist svipaðar en eignir aukist.

„Eigið fé hefur verið að aukast í fyrirtækinu, sem er ágætt. Það er ágætlega statt og þetta þýðir í raun að við höfum haldið skuldunum svipuðum en fjárfest mikilð.“

Honum var bent á það
Fyrirtækið leggur jafnan mesta áherslu á uppsjávarfiskinn, loðnu og síld ásamt makríl og kolmunna.

„Við erum með stóra hlutdeild í loðnu og norsk-íslenskri síld,“ sagði Stefán, eða um 20 prósent íslenska kvótans. Aftur á móti er Síldarvinnslan aðeins með 5,2 prósent kolmunnakvótans og 12,25 prósent makrílkvótans, sem Stefan segir vera töluvert minna en væntingar stóðu til.

Hann segir fyrirtækin í Vestmannaeyjum, það er Ísfélagið, Vinnslustöðina og Hugin hafa verið afar ósátt við makrílhlutdeild sína og þess vegna hafi Ísfélagið og Huginn frá árinu 2011 staðið í málaferlum við ríkið, sem þau unnu svo sigur í skömmu fyrir jól.

„Á sínum tíma þegar Jón Bjarnason var ráðherra þá gat hann auðveldlega sett inn bráðabirgðaákvæði í lögin um makríl á réttum tíma. Hann gerði það ekki. Honum var bent á það og hann sagði bara: Ég ræð, mér er alveg sama hvað lögin segja.“

Óveðursský nálgast
Stefán segir blikur á lofti hvað varðar uppsjávarveiðarnar, því hætt sé við því að Íslendingar missi alla vottun þeirra veiða takist ekki að semja við nágrannaþjóðirnar um skiptingu aflans.

„Í raun og veru þurfum við ekkert að semja ef bara hver og einn ákveður að veiða ekki meira en svo að summan af allri veiðinni sé innan ásættanlegra marka,“ sagði Stefán.

Hann segir Íslendinga, rétt eins og nágrannaþjóðirnar, stunda ofveiði á þremur uppsjávarstofnum, nefnilega kolmunna, makríl og norsk-íslenskri síld.

„Þetta eru allt stofnar sem eru stórkostlega ofveiddir. Þetta eru allt stofnar sem við erum langt frá því að ná samkomulagi við strandríkin um nýtingu,“ segir Stefán. Nú séu blikur á lofti því vottanir um sjálfbærar veiðar eru háðar því að ofveiði sé ekki stunduð.

„Staðreyndin er sú að ef við gerum ekki neitt þá munu þessir þrír stofnar missa vottanir og kaupendur okkar, þeir munu ekki vilja kaupa af okkur afurðirnar. Hvað ætlum við að gera þá?“

Sjálfur segist Stefán ekki hafa tekið vottunum fagnandi til að byrja með.

„Manni fannst þetta algjört rugl,“ sagði hann. „En það breytir því ekki að þetta er staðreynd og það eru kröfur um þetta. Staðan er einfaldlega þannig að stórir stofnar deilistofnar hafa vissulega vottun í dag en það eru óveðurský við sjóndeildarhringinn. Sumir kalla þetta deilustofna.“

Hann sagði vísindin reyndar ekki alltaf hárnákvæm. Stundum komi árgangarnir betur út em menn reiknuðu með og ýmsir hafi gagnrýnt aðferðafræði rannsóknanna.

„En þetta er staðan að meðan vísindamennirnir leggja eitt til og við gerum eitthvað annað, og það heitir ofveiði, þá mun styttast í að við stöndum frammi fyrir þessu og það er bara stórmál. Þetta er hlutur sem menn verða að fara að snúa sér að að leysa. Því hvað gerist þá? Þá minnkar það sem allar þjóðirnar fá. Það setur gríðarlega pressu á hagræðingu.“