miðvikudagur, 1. apríl 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tengdir aðilar fá sex ára frest

17. febrúar 2020 kl. 11:05

Kristján Þór Júlíusson. MYND/HAG

Drög að frumvarpi um tengda aðila og hámark aflahlutdeildar kynnt í Samráðsgátt stjórnvalda

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnir drög að frumvarpi um breyttar reglur um hámarksaflahlutdeild tengdra aðila og breyttar skilgreiningar á því hvað teljast tengdir aðilar.

Kjarninn greindi fyrstur frá, en frumvarpsdrögin hafa verið birt í Samráðsgátt stjórnvalda.

Samkvæmt drögunum fá útgerðarfyrirtæki frest til loka fiskveiðiársins 2025-26 til að koma sér undir lögbundið kvótaþak.

"Tilefni þessa frumvarps er fyrst og fremst að skýra betur hvað teljast tengdir aðilar í sjávarútvegi og gera nauðsynlegar breytingar á reglum þannig að Fiskistofa geti sinnt markvissar lögbundnu eftirliti með þessum þætti," segir í greinargerð með frumvarpsdrögunum.

Áfram gildir sú regla að tengdir aðilar megi vera með 12 prósent heildaraflahlutdeildar en í nýju reglunum er gert ráð fyrir því að fari samanlögð aflahlutdeild einstakra aðila eða tengdra aðila yfir 6% af heildarverðmæti allra kvótasettra tegunda þurfi Fiskistofa að meta sérstaklega öll viðskipti þeirra með kvóta og eignarhlut eða leigu á skipum.

Í greinargerðinni segir ennfremur: "Núgildandi reglur um hámarkshlutdeild hafa einkum sætt gagnrýni fyrir að vera óskýrar þar sem erfitt hefur reynst að sýna fram á hvenær tveir aðilar skuli teljast tengdir við framkvæmd þeirra."

Frumvarpið er byggt á vinnu verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni og samráðshóps um sama efni. Verkefnastjórnin skilaði tillögum í desember.

Í frumvarpsdrögunum er skýrt betur hvað átt sé við með „raunverulegum yfirráðum" í sjávarútvegi.

„Í flestum tilfellum segir skráður beinn eða óbeinn eignarhlutur til um hvort um yfirráð sé að ræða. Aðrir þættir geta þó haft áhrif á hvort aðili hafi raunveruleg yfirráð líkt og fram kemur í skilgreiningunni en eftir sem áður mun þurfa að framkvæma eitthvert mat í einhverjum tilvikum.“