mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Það verður ekki róið til fiskjar úr hverjum firði

25. júní 2011 kl. 13:03

Björn Valur Gíslason

Björn Valur Gíslason þingmaður VG telur ástæðu til að staldra við og taka stöðuna.

Björn Valur Gíslason þingmaður Vinstri grænna skrifar grein í nýjustu Fiskifréttir þar sem hann telur rétt að staldra við og íhuga hversu mikið sjávarútvegurinn eigi að leggja af mörkum til þess að viðhalda byggð í landinu.

,,Nú er alls ríflega 30.000 tonnum af fiski ráðstafað með ýmsum hætti  til slíkra mála og hefur þessi hluti kerfisins aukist verulega á undanförnum árum,” segir Björn Valur. ,,Ég er í hópi þeirra sem tel rétt að við stöldrum nú við og tökum stöðuna áður en lengra verður haldið á þeirri braut. Eru strandveiðar að skila því sem þeim var ætlað? Er byggðakvótinn að skila tilætluðum árangri? Er rétt að endurskoða línuívilnunina? Hversu miklu magni af fiski á að veita til slíkra aðgerða á hverju ári? Er kannski líklegra að við náum að auka atvinnu og treysta byggð í landinu öllu með öðrum og skilvirkari hætti en hingað til?” 

Síðan segir Björn Valur: ,,Mitt mat er að sá tími sé liðin að við getum leyft okkur að nýta auðlindir sjávar eins og við gerðum áður. Við munum aldrei hverfa aftur til þeirra tíma sem róið var til fiskjar frá hverjum firði og fiskur var unnin í hverri vík. Ég tel að við séum nú komin að ákveðnum vegamótum hvað þetta varðar og þurfum að leyfa okkur að vera frjó í hugsun og fara ótroðnar slóðir."