föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þarf markvissa uppbyggingu þekkingar

Svavar Hávarðsson
26. nóvember 2017 kl. 12:00

Háskólinn á Akureyri er vagga sjávarútvegsfræða á Íslandi. Mynd/HA

Frekari uppbygging í sjávarútvegi og tengdum tæknifyrirtækjum krefst fjárfestingar í mannauði

Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands munu í upphafi árs 2019 bjóða tólf mánaða meistaranám á ensku í sjávarútvegsfræði og fiskveiðistjórnun. Markhópur skólanna er fyrst og fremst erlendir nemendur.

Þetta var meðal þess sem kom fram á málstofu um menntun í sjávarútvegi á Sjávarútvegsráðstefnunni 2017 í síðustu viku. Þar var tekist á við stórar spurningar. Hverju það sætir að stór hluti ungs fólk í háskólanámi lítur ekki á sjávarútveg sem vænlegan kost að námi loknu, en á sama tíma eykst þörfin á menntuðu starfsfólki í sjávarútvegi sífellt vegna aukinnar tæknivæðingar og aukinna krafna til gæða og þjónustu. Á sama tíma á greinin allt undir því að laða til sín ungt fólk – og það stóran hóp. Öðruvísi verður ekki haldið í samkeppnishæfni greinarinnar á alþjóðlegum mörkuðum.

Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, sagði að vissulega hefði náðst mikill árangur af tækni og nýsköpun á grundvelli kunnáttu og rannsókna í íslenskum sjávarútvegi. En áframhaldandi uppbygging krefðist fjárfestinga í mannauði sem erfitt sé að ná nema markaðssvæði íslenskra háskóla sé stækkað. Í smæð landsins felist flöskuháls á uppbyggingu námsbrauta sem nýttust sjávarútvegsfyrirtækjunum og því þurfi að kalla mannauðinn til landsins og í því augnamiði munu háskólarnir tveir bjóða hina nýju námsbraut, sem aðeins er hugsaður sem fyrsti vísir að því sem gæti þróast í framhaldinu.

Yfirvöld hlusta ekki
Daði fór í gegnum þann árangur sem hefur náðst á undanförnum árum. Hann sé gríðarlegur og hagræðing hafi frá aldamótum skilað greininni hærri tekjum, lægri kostnaði og betri nýtingu fjárfestinga. Ávinningurinn sé talinn í milljarðatugum og byggi fyrst og síðast á þekkingu, og þar séu tækifærin til lengri tíma litið.

„Það þarf að stórauka markvissa uppbyggingu þekkingar. Ekki bara í háskólunum, heldur úti um allt,“ sagði Daði og nefndi sérstaklega að styðja þyrfti fyrirtækin í landinu til að nýta þá þekkingu sem þar er fyrir, ásamt því sem er nærtækara að auka umfang meistara- og doktorsnáms sem lykil að fyrrnefndri uppbyggingu.

Hins vegar kom fram í máli Daða að uppbygging náms á Íslandi er sjálfstætt vandamál. Greiðslur hins opinbera eru þær sömu fyrir hvern nemenda óháð fræðigrein; það þarf lágmarksfjölda nemenda til að námsbraut standi undir sér og stendur því fyrir þrifum að mögulegt sé að forgangsraða í menntakerfinu. Afleiðingin er sú að íslenskt menntakerfi offramleiðir sérfræðinga þar sem námið er ódýrt – til dæmis lögfræðinga – en ekki fólk með sérþekkingu sem gagnast sjávarútvegi.

Þessu væri hægt að breyta með markvissri fjárfestingu yfirvalda í menntun í sjávarútvegi, sagði Daði sem telur þó, af fenginni reynslu, að það sé gott sem vonlaust að ná eyrum yfirvalda hvað það varðar. Það hafi einfaldlega verið reynt og skilað engu.

„Hina leiðina tel ég einfaldlega skynsamlegri, að opna námið fyrir stærri markaði,“ sagði Daði enda snúist dæmið um mannauð. Með því að opna námið sé hægt að nálgast hann og þegar allt kemur alls þá snúist málið ekki um neitt annað. Hvaðan sá mannauður kemur skipti ekki meginmáli heldur sú þekking sem skapast.

„Ég held að það séu gríðarleg tækifæri í því falin að flytja mannauðinn inn og þekkinguna út,“ sagði Daði og bætti því við að fyrirmynd að fjölbreyttu námi í sjávarútvegstengdum fræðum sé þegar að finna í landinu. En það er Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna sem byggir á mannauði allra háskólanna og stofnana á þessu sviði á Íslandi, til dæmis Matís og Hafrannsóknastofnun.

„Þar er uppskriftin að því hvernig við eigum að standa að þessu sameiginlega; þannig að við bjóðum þetta nám öllum heiminum.“

Vaggan á Akureyri
Vagga sjávarútvegsfræða á Íslandi er Háskólinn á Akureyri – kennd við Viðskipta- og raunvísindadeild skólans innan auðlindadeildar. Kennsla hófst árið 1990 og rúmlega 200 sjávarútvegsfræðingar hafa útskrifast á þeim tíma, en í dag eru um 100 nemendur skráðir. Þar er markmiðið skýrt; að mennta fólk í undirstöðuatriðum íslensks sjávarútvegs og þjálfa stjórnendur innan fyrirtækja hvort sem veiðar, vinnsla, viðskipti eða vísindi eru verkefnin. Námið opnar aðgengi að fjölbreyttum störfum, sem er lykilatriði.

Um þetta fjallaði Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri; haftengt nám og sýndi svart á hvítu að uppbygging náms fyrir sjávarútveg á Íslandi stenst almennt séð illa þær kröfur sem ungt fólk gerir þegar það skipuleggur framtíð sína. Mörg þeirra starfa sem nú eru unnin innan greinarinnar verða einfaldlega horfin innan ekki langs tíma. Sveigjanleiki, fjölbreytni, verði því að vera innbyggt í námið svo það veki áhuga. Tiltekin námsleið verði að bjóða upp á tækifæri til endurmenntunar og síðar meir gefa tækifæri til að fara á milli atvinnugreina og gefi þekkingu til að grípa tækifærin þegar þau gefast.

Grunnurinn í verk- tækni- og starfsnámi svarar ekki þessu kalli, heldur þvert á móti. Námsleiðir krefjist þess að alltaf sé byggt ofan á það sem fyrir er og sveigjanleiki lítill. Ekki er hægt að flakka á milli námsleiða og ekki einu sinni ljóst hvenær tilteknum réttindum er náð. Á sama tíma bíða fjölbreytt störf þeirra sem kjósa slíkt nám – lykilstörf í þeirri tæknibyltingu, eða nútímavæðingu greinarinnar, sem þegar er hafin á ógnarhraða. Á sama tíma sé almennt bóknám skýrt uppsett og engan skyldi undra þó ungt fólk velji það frekar enda fjölbreytni og sveigjanleiki mikill, sagði Eyjólfur og bætti því við að nám í haftengdum fræðum sé ekki þessu marki brennd og nefndi dæmi frá Ítalíu, Bandaríkjunum, Kanada, Danmörku og Noregi.

Brúa þarf bilið
„Það þarf að breyta kerfinu í heild sinni þannig að fagnámið sé á framhaldsskólastigi og lýkur með stúdentsprófi. Háskólarnir taka svo við og mennta fólk í sjávarútvegsfræði, haftengdri tæknifræði, haftengdri umhverfisfræði, haftengdri viðskiptafræði og svo framvegis, eða öðrum háskólagreinum,“ sagði Eyjólfur og bætti við að nauðsynlegt sé að brúa bilið á milli háskólanna, framhaldsskólanna og annarra sem að málum koma.