laugardagur, 19. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þörf á endurnýjun björgunarskipaflotans

Guðjón Guðmundsson
26. janúar 2018 kl. 08:00

Nökkvi, hugmynd Rafnars í Kópavogi að nýrri kynslóð björgunarskipa. MYND/RAFNAR

Kostnaður talinn hlaupa á 1,5 til 2 milljörðum króna

Mikil þörf er á endurnýjun björgunarskipa Slysavarnafélag Landsbjargar sem er alls tólf talsins og þrettán að meðtöldu skipi Björgunarfélags Vestmannaeyja sem er í þeirra eigu. Skipin, utan Vestmannaeyja, sem nú eru í notkun voru keypt notuð af Konunglega breska sjóbjörgunarfélaginu í Bretlandi, RNLI, eftir síðustu aldamót og eru komin mjög til ára sinna.

Sigurður R. Viðarsson, verkefnisstjóri sjóbjörgunarmála hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, segir stöðuna nú vera þá að ekki sé útlit fyrir að mikið framboð verði á notuðum björgunarskipum erlendis frá á næstu árum. Þegar þau komi svo inn á markaðinn notuð yrði staðan fljótt sú sama og er núna, að Slysavarnafélagið Landsbjörg sæti uppi með flota gamalla björgunarskipa sem erfitt og kostnaðarsamt er að halda í rekstri. Fátt annað sé því í  stöðunni en að huga að nýsmíði. Þó sé ekki víst að endurnýja þurfi allan flotann og sum af núverandi björgunarskipum gætu nýst eitthvað áfram.

Skip með 25-30 hnúta hraða

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur einmitt í undirbúningi að fara í greiningu á þörfinni og í því sambandi er ráðgert að haft verði samráð við björgunarsveitir sem koma að rekstri skipanna um allt land. Endanleg ákvörðun verði síðan tekin af stjórn samtakanna að höfðu ítarlegu samráði.

Núverandi björgunarskip hafa flest að hámarki 12-15 hnúta ganghraða. Sigurður segir að draumur félagsins sé að á mikilvægustu stöðunum verði björgunarskip með 25-30 hnúta ganghraða. Engin ein gerð báta sé þar fyrirmyndin en þær leiðir sem nágrannaþjóðir hafa farið í þessum efnum hafa verið skoðaðar. Sigurður segir að miða þurfi björgunarskipin að aðstæðum eins og þær eru við Ísland. Skipin þyrftu að vera 12-16 metra löng og með 4-5 manna áhöfnum. Þau þyrftu að búa yfir miklum stöðugleika, geta lagst upp að öðrum skipum úti á rúmsjó og þyrftu að vera fljót í förum.

Aðkoma annarra að fjármögnun

Áætla megi að kostnaður við hverja nýsmíði hlaupi á 200-250 milljónum króna á hvert skip ef marka mætti þann kostnað sem nágrannaþjóðir hafa lagt út í við sína endurnýjun. Ekki er þó talið nauðsynlegt að allur björgunarskipaflotinn verði endurnýjaður á sama tíma.

Sem fyrr segir stendur fyrir dyrum að greina þörfina fyrir ný björgunarskip innan samtakanna á næstunni og þess vegna segir Sigurður erfitt að leggja mat á heildarkostnað við endurnýjunina. Ljóst er þó að hún getur hlaupið á 1,5 til 2 milljörðum króna, eða mun hærri fjárhæðum en Landsbjörg myndi nokkurn tíma ráða við. Það segi sig því sjálft að fleiri aðilar þurfa að koma að fjármögnuninni enda öryggi allra sjófarenda við Ísland í húfi. Aðkoma hins opinbera þyrfti að vera tryggð, sem og sveitarstjórna, samtaka og hagsmunaaðila.