þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þorskvinnsla í Kína að verða óarðbær

23. nóvember 2012 kl. 16:20

Fiskvinnsla í Kína

Laun hafa þrefaldast á fimm árum og flutningskostnaður sömuleiðis.

Vinnsla á þorski í Kína úr heilfrystu evrópsku hráefni er við það að verða óarðbær í stóru flakavinnsluhúsunum í Qingdao og Dalian í Kína. Laun hafa þrefaldast síðan árið 2007 og flutningskostnaður næstum því eins mikið.

Þetta segir dr. Jinghua Xie, sem vinnur að rannsóknum við Verslunarháskólann í Tromsö í Noregi, en þær beinast að því að kortleggja flutning á fiski og vinnslu á honum í Kína. 

,,Nú þegar er tap á vinnslu á alaskaufsa og allt stefnir í að ekki verði hagnaður af því að vinna atlantshafsþorsk heldur,“ segir Xie. ,,Nú vilja kínversku fiskiðjuverin helst hafa í höndum pantanir á fullunnu vörunni áður en þeir kaupa hráefnið.“

Samhliða þessu eykst í Kína neysla á fiski, þar með töldum hvítfiski, í takt við aukinn fólksflutning til borganna úr sveitunum, sérstaklega í austurhluta landsins. Þorskur og alaskaufsi eru 90% þess hvítfisks sem neytt er í landinu. 

Þetta kom fram á þorskráðstefnu sem haldin var í Tromsö í síðustu viku. Þar greindi Xie m.a. frá því að þorskflak með roði í 250 gramma pakkningu væri selt jafnvirði 880 íslenskra króna í búðum í Shanghai, sem auglýstu sérstaklega að þetta væri fiskur sem hefði verið pakkað í útlöndum og fengið gæðavottorð þar. 

Frá þessu er skýrt í Fiskeribladet/Fiskaren.