sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þriðjungssamdráttur í sölu á saltfiskafurðum 2011-2018

8. júní 2018 kl. 06:00

Golden Seafood Company er með vinnslu á Grandatröð í Hafnarfirði.

Framtíðin vinnsla útvatnaðs fisks

 

Samdráttur í sölu á saltfiskafurðum er að minnsta kosti 27% á tímabilinu 2011 til 2018.  Ein af ástæðunum eru breytingar á neysluvenjum á Spáni og víðar þar sem markaðurinn er að færast meira út í útvatnaðan saltfisk á kostnað hefðbundinnar verkunar. Mikael Símonarson, sölu- og markaðsstjóri hjá Golden Seafood Company í Hafnarfirði, segir að saltfiskframleiðendur þyrftu að laga sig að þessum breytingum. Miklir möguleikar séu í aukinni fullvinnslu og vinnslu í neytendapakkningar.

gugu@fiskifrettir.is

Golden Seafood Company er fjölskyldufyrirtæki sem hefur verið starfandi síðastliðin sextán ár jafnt við saltfiskframleiðslu fyrir erlenda markaði og útflutning. Hráefnið fæst aðallega á fiskmörkuðum. Fyrirtækið hefur verið í samstarfi við Íslandsstofu undanfarin ár eins og fleiri framleiðendur. Einnig hefur það átt samstarf við íslenska sendiráðið í Washington um kynningu á íslenskum sjávarafurðum í Kanada.

Mikael var formaður félags Íslenskra saltfiskframleiðenda á Íslandi og situr nú í stjórn samtakanna. Markaðsátak í samstarfi við Íslandsstofu hefur staðið yfir frá 2012 í Suður-Evrópu og segir Mikael það hafa skilað miklum árangri. Mest áhersla hefur verið lögð á Spán enda stærsti markaðurinn fyrir saltfiskflök með um 70% af allri framleiðslunni. Fiskurinn sem fer til Spánar er sprautusaltaður og lítur betur út í fiskborði og eingöngu er um línufisk að ræða. Fiskurinn sem fer til Portúgal er hefðbundinn saltfiskur og veiddur með öllum veiðarfærum. Hráefnið í sprautusaltaða fiskinn er dýrara og Spánverjar og Ítalir greiða enda umtalsvert hærra verð en Portúgalir og Grikkir enda um aðra vöru að ræða.

Margir fært sig yfir í ferskan fisk

„Saltfiskur hefur verið að hækka lítillega í verði. En frá árinu 2014 tók verðið gífurlega dýfu niður á við. Verð lækkuðu jafnt á Spáni, Portúgal og Ítalíu og það dró verulega úr sölunni um leið. Margir af stærri framleiðendunum hafa fært sig yfir í ferskan fisk á kostnað saltfiskframleiðslunnar,“ segir Mikael.

Hann segir að spænskir saltfiskkaupendur hafi hagnast mikið á viðskiptunum við íslenska framleiðendur á árunum 2014 til 2017. Verð til neytenda hafi lækkað um 5-10% á þessum tíma á sama tíma og saltfiskframleiðendur hafa þurft að taka á sig 35-40% lækkun. Saltfiskkaupendur hafi tekið mismuninn.

Hann segir að sú breyting sé að verða á Spáni og víðar að fyrirtækin þar leggja sig meira eftir útvatnaðri og tilbúinni vöru. Þetta gæti hugsanlega leitt til þess að framleiðendur hér á landi þyrftu að þróa vöruna áfram í þá átt. Það myndi leiða til aukinnar vinnslu í landi og að sjálfsögðu verðmætari vöru. Nýting hráefnisins eykst til muna þar sem útvatnaður fiskur innihaldi um 15-20% vatn. Þar með hækki verðið strax sem því nemur að minnsta kosti.

Meiri fullvinnsla

„Framtíðin gæti verið sú að menn byrji að útvatna saltfiskinn og frysta og senda til Suður-Evrópu. Þetta hefur í för með sér mikla breytingu á vinnslunni og við höfum rætt þetta á okkar fundum í ÍSF að þetta gæti verið framtíðarþróunin í saltfiskvinnslunni. Þetta er vara sem hentar jafnt inn á Spán, Ítalíu, Frakkland, Bretland, Sviss og fleiri landa. Útvatnaður saltfiskur er tilbúinn til neyslu og markaðurinn fyrir slíkri vöru er mun stærri en fyrir hefðbundinn saltfisk. Mikil hefð er fyrir saltfiskneyslu til dæmis í Boston í Bandaríkjunum þar sem er mjög stórt samfélag portúgalskra innflytjenda. Þarna er óplægður akur og mikil tækifæri fyrir þá sem vilja breyta vinnslunni og fara að framleiða útvatnaðan saltfisk.“

ÍSF hefur sótt um styrki til ASF til þróunar á nýjum vinnsluferlum í tengslum við útvötnun. Stóru saltfiskframleiðendurnir hafi gert tilraunir á þessu sviði en þær hafa ekki verið stórar í sniðum. Mikael telur að það gæti tekið talsverðan tíma að breyta vinnslunni á þennan hátt en að þetta sé framtíð saltfiskvinnslu í landinu, í það minnsta fyrir Spánarmarkað.

Saltfiskframleiðendum fækkað um helming

„Ungt fólk á Spáni kaupir ekki saltfisk og útvatnar hann í fimm daga áður en það matreiðir hann. Nútímafólk vinnur mikið, þarf að sinna heimili og fjölskyldu og gera margt annað sem fólk gerði ekki áður fyrr. Það kýs því að kaupa matvöru sem tekur stuttan tíma að matreiða. Framleiðsla íslenskra saltfiskframleiðenda verður að taka mið af þessari staðreynd, annars er hætta á því að saltfiskurinn missi fótfestu á þessum mörkuðum.“

Mikael telur að samdrátturinn í sölu á saltfiski frá árinu 2011 sé jafnvel meiri en 27%. Milli áranna 2014 og 2015 hafi samdrátturinn orðið hve mestur. Nú hafi rótgrónir saltfiskframleiðendur, eins og t.d. KG fiskverkun á Rifi og Vísir í Grindavík, snúið sér í stórauknum mæli að ferskfiskframleiðslu á kostnað saltfiskframleiðslu. Saltfiskframleiðendum hafi fækkað um meira en helming og af þeim sökum hafi framboð minnkað verulega og verð þess vegna að þokast upp á við.