föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þriðjungur af þorskaflanum fluttur út ferskur

Guðjón Guðmundsson
26. nóvember 2017 kl. 09:00

Jón Þrándur Stefánsson, yfirmaður greininga hjá Markó Partner.

Útflutningsverðmæti úr 12% í 39%

Hlutdeild fersks fisks í þorskútflutningi hefur aukist úr tæpum 11% af heildarútflutningnum árið 2000 í 33,3% árið 2017. Útflutningsverðmæti ferskra þorskafurða hafa á sama tíma aukist úr tæpum 12% af heildarútflutningsverðmætunum í tæp 40%.

Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Jóns Þránds Stefánssonar, yfirmanns greininga hjá Markó Partner á Sjávarútvegsráðstefnunni í síðustu viku.

Hlutfall frystra þorskafurða verður á þessu ári nálægt 41,5% af heildarútflutningnum, (var 48% árið 2000) og nærri 37% af útflutningsverðmætum (var 45% árið 2000), og saltaðra og þurrkaðra afurða nálægt 25% í magni (var 41% árið 2000) og 24% í verðmætum (var 43% árið 2000).

Jón Þrándur vék einnig að því að mikil fjárfesting hafi orðið í nýrri tækniþróun hjá landvinnslunni og fyrirtækin séu farin að bjóða upp á vörur sem ekki hafi verið til áður. „Það er farið skera flökin með öðrum hætti og hnakka og það er ýmis konar vöruþróun að eiga sér stað sem er bein afleiðing af tækniþróuninni. Þetta hefur áhrif út á  markaðina,“ segir Jón Þrándur.

Frakkland helmingur allra verðmætanna

Hann benti á að árið 2000 var um 70% af öllum ferskum þorski fluttur út til Bretlands. 2005 er þetta komið niður í 60%, 2010 er það komið niður í 44%. Á þessu ári stefnir í að hlutfall ferskra þorskafurða inn á Bretlandsmarkað verði innan vð 15% af heildinni.

„Þetta bendir til þess að verið sé að framleiða aðra vöru inn á aðra markaði. Þegar litið er til áranna 2000 til 2017 sjást líka miklar breytingar á útflutningslöndunum. Árið 2000 var útflutningur á ferskum þorskafurðum til Frakklands um 1%. Árið 2017 er nærri 44% af öllum útflutningnum til Frakklands sem stendur undir nærri helmingi útflutningsverðmætanna.“

Í erindi Jóns Þránds var einnig vikið að veiðimynstri íslenska fiskiskipaflotans sem myndar tiltölulega jafnt framboð á hráefni eftir mánuðum ársins. Þegar litið er til Noregs verða miklir toppar í framboði á fyrstu þremur mánuðum ársins en síðan dettur framboðið niður.

„Þetta er ákveðið lykilatriði í því að skilja hvaða tækifæri Íslendingar hafa á ferskfiskmörkuðum.“ Áhrif sjómannaverkfallsins kemur þó berlega í ljós þegar tölur eru skoðaðar og hefur framboðið því verið mun ójafnara á þessu ári en undanfarin ár. Það hafi haft áhrif á verðlagningu.“