föstudagur, 27. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þrír dagar í landi eftir hvern túr

3. apríl 2020 kl. 11:20

Gullver NS. (Mynd: Ómar Bogason)

Hægt hefur á öllu varðandi sölu á fiski og því er einnig víða hægt á veiðunum.

Ísfisktogarinn Gullver kom til Seyðisfjarðar á mánudag og landaði þar 101 tonni. Aflinn var mest þorskur og karfi en einnig dálítið af ufsa, að því er kemur fram á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Rúnar L. Gunnarsson var skipstjóri í veiðiferðinni og segir hann að helsta fréttin sé sú að það hafi haldist þokkalegt veður allan tímann.

„Það ber að fagna því að loksins fái menn gott veður til veiða, en veturinn hefur verið skelfilegur veðurfarslega. Við byrjuðum túrinn í Skeiðarárdýpi í þeirri von að fá þar djúpkarfa en það bar heldur lítinn árangur. Síðan var haldið austur eftir og endað á Fætinum í þorski. Það er búið að hægja verulega á skipinu vegna Covid-19. Það hefur hægt á öllu varðandi sölu á fiski og því er einnig hægt á veiðunum. Núna förum við einungis eina veiðiferð í viku og það eru þrír dagar í landi eftir hvern túr. Það er mikil breyting frá því sem verið hefur,“ segir Rúnar.

Gullver hélt til veiða að nýju á miðvikudagskvöld.