mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þurfa sjálfbærar fiskveiðar vottun?

21. janúar 2019 kl. 14:00

Gísli Gíslason

Sjálfbærnivottun fiskveiða nýtist í vaxandi mæli í markaðsstarfi á alþjóðlegum mörkuðum.

Á síðustu öld jókst mjög tækni við fiskveiðar, svo mjög að sumir fiskstofnar voru ofveiddir og í dag áætlar Matvæla og Landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO  að a.m.k um 30% af heimsveiðinni sé ofveiði.

Með stofnun Marine Stewardship Council (MSC) var búið til alþjóðlegt vottunarkerfi sem skilgreindi hvaða skilyrði veiðar þurfi að uppfylla til að teljast sjálfbærar. Hugmyndin er sú, að ef öll birgjakeðjan frá slíkum fiskveiðum hafi rekjanleikavottun þá geti sá sem býr til neytendavöruna merkt hana með umhverfismerki MSC. Stórmarkaðir og aðrir sáu viðskiptatækifæri í því að sýna sínum viðskiptamönnum, fólki sem kaupir í matinn, fólki sem kaupir matvöru til endursölu á veitingastöðum, að varan sem fólk verslaði með kæmi úr sjálfbærum fiskveiðum.  Með því var jafnframt staðfest að ekki væri verið að versla með sjávarafurðir úr ofveiddum fiskistofnum. Sum umhverfissamtök sáu að ef almenn krafa væri á markaði um slíka vottun, þá myndi umgengni um sjávarauðlindina batna.  Hugsjónin á bakvið MSC var, og er, að með aukinni eftirspurn eftir sjálfbært vottuðum sjávarafurðum þá verði á endanum allir fiskstofnar heimsins nýttir með sjálfbærum hætti og ofveiði heyri þar með sögunni til.  Það hljóta flestir, ef ekki allir, að taka undir þá hugsjón.

Á vottun erindi?

Í Morgunblaðinu þann 14. desember s.l. birtist grein þar sem spurt var hvort að alþjóðleg vottun um sjálfbærni fiskveiða á borð við MSC vottun eigi eitthvað erindi við veiðar á Íslandi, sem eru sagðar sjálfbærar. Þar var sérstaklega fjallað um grásleppuveiðar þar sem afturköllun á vottuninni í fyrra var sökum meðaflavandamála.

Til að svara spurningunni, hvort sjálfbærar veiðar þurfi vottun, þá  er mikilvægt að hafa í huga að það er valkvætt að fara í MSC fiskveiðivottun, og eins er það valkvætt fyrir fyrirtæki að fá sér rekjanleikavottun eða að nota umhverfismerki MSC á afurðir.  Niðurstaða hverju sinni er háð hagsmunamati þeirra sem eiga hlut að máli. Það er því mikilvægt að allir hagsmunaðilar skoði vel hvort að fiskveiðivottunin gagnist hagsmunum greinarinnar.  Almenn reynsla sýnir að sjálfbærnivottun fiskveiða nýtist í vaxandi mæli í markaðsaðgengi og markaðssetningu fiskafurða á alþjóðlegum mörkuðum.  Eins og allt annað sem fær vottun, þá geta fiskveiðar einnig misst vottun. Reynslan sýnir að, oftar en ekki, reyna þá umsækjendur vottunar, sem þeir hafa misst, að fá aftur vottunina gilda. Það undirstrikar mikilvægi vottunar.

Aldrei til skaða

Nær allar sjávarafurðir úr fiskveiðum Íslendinga þ.m.t úr grásleppuveiðum,  fara á erlenda markaði.  Bæði Grænlendingar og Norðmenn sem eru helstu samkeppnisþjóðir Íslands á mörkuðum með grásleppuhrogn hafa hlotið MSC vottun á sínar grásleppuveiðar. Afurðir  úr grásleppuveiðum fara almennt á markaði þar sem er krafa er gerð um MSC vottun, þó það sé vissulega breytilegt eftir mörkuðum. Ef fiskveiðar eru sjálfbærar þá hlýtur vottun frekar að styrkja stöðu á markaði, a.m.k. ætti vottun ekki að skaða. Ef þörf er á auknum rannsóknum til að standast kröfur vottunar, þá hlýtur það að verða góð fjárfesting fyrir greinina, því almennt eru vaxandi kröfur um upplýsingar og gagnsæi.

Höfundur er svæðisstjóri MSC í Norður Atlantshafi.